132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:07]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að ekki ætti að stökkva til og fara í samningsgerð vegna starfsmanna. Ég er ósammála því og þess vegna stend ég hér upp. Umræddir starfsmenn hafa lengi búið við óvissu. Þeir hafa búið við óvissu síðustu tvö til þrjú ár. Henni verður að létta hver sem niðurstaðan verður. Það er mjög óþægilegt að búa við þetta. Í allmörg ár hafa verið uppi áform um að herinn fari, það vitum við öll. Ég verð því miður að segja að það er fremur almenn regla, regla frekar en undantekning, að starfsmenn gleymist við aðstæður af því tagi og það er óþægilegt að vera í slíkri stöðu. Satt best að segja treysti ég hæstv. utanríkisráðherra til að sjá til þess eins fljótt og unnt er að þessari óvissu verði aflétt hver svo sem niðurstaðan kann að verða. Það er meira að segja betra að fá vond tíðindi strax en bíða lengi eftir þeim.