132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:31]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn á ný fáum við staðfestingu á því frá þingmönnum Framsóknarflokksins hversu arfavitlaus hugmynd það er að setja upp nýjan innanlandsflugvöll á Lönguskerjum í Skerjafirði. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór ágætlega yfir þetta í máli sínu. Hann er þingmaður Framsóknarflokksins sem er sá flokkur sem exbé-framboðið í Reykjavíkurborg kennir sig við. Hann er, ef ég man rétt, fyrrverandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Ég heyri ekki betur en hann sé alfarið andvígur því að innanlandsflugið verði flutt út á Löngusker.

Hér talaði áðan hv. núverandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Hjálmar Árnason, og hann lýsti líka mjög alvarlegum efasemdum um það að Lönguskerin væru kostur til framtíðar. Ég hygg að ansi lítil sannfæring sé fyrir hendi hjá Framsóknarflokknum þegar grannt er skoðað fyrir því að hægt sé að ná einhverri þjóðarsátt um það að fara með innanlandsflugið á Íslandi út í sjó, það sé í raun og veru ansi lítil sannfæring fyrir því. Þessar fyrirætlanir allar séu í raun og veru byggðar á sandi, það sé ansi lítið á bak við fallegt myndband sem dunið hefur á landsmönnum undanfarna daga sem sýnir hvernig hægt er að bora gat í Öskjuhlíðina og nota efnið úr henni til að byggja upp flugvöll á Lönguskerjum. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem ég veit að er góður stærðfræðingur, var fljótur að reikna það út í huganum að efnið úr þeirri músarholu dygði skammt þegar kæmi að því að moka efni í hafið í næsta nágrenni við bóndann á Bessastöðum, hæstv. forseta lýðveldisins, það mundi duga skammt.

Ég segi það enn og aftur að þessi hugmynd um flugvöll á Lönguskerjum er gersamlega fráleit, virðulegi forseti.