132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu og notaði aðeins helming af ræðutíma mínum í fyrri ræðu en nú hafa veður skipast þannig í lofti að einir þrír stjórnarþingmenn hafa lagt ákaflega athyglisvert innlegg inn í þessa umræðu. Ber þar hæst framlag hv. þm. Hjálmars Árnasonar, formanns þingflokks Framsóknarflokksins, og í kjölfar hans flokksbróður hans, hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar.

Þegar hv. þm. Hjálmar Árnason lauk máli sínu var ég að velta því fyrir mér hvort ég ætti að biðja um orðið um fundarstjórn forseta og biðja forseta að úrskurða hvor okkar hefði misskilið þetta mál, ég eða hv. þm. Hjálmar Árnason, þ.e. hvort þetta frumvarp væri um Keflavíkurflugvöll eða Reykjavíkurflugvöll. Það virtist ekki vera alveg á hreinu þegar hv. þm. Hjálmar Árnason var að tala. En þeir hafa heldur betur tekið hér rispuna, hv. þingmenn Hjálmar Árnason og Kristinn H. Gunnarsson, og slátrað, leyfi ég mér að segja á mannamáli, endanlega hugmynd framsóknarmanna í Reykjavík, exbé, — það má víst ekki nota orðið Framsóknarflokkur í því samhengi — slátrað hugmynd exbé um flugvöll á Lönguskerjum. Sú langavitleysa er dauð eftir þennan dag og sorglegt til þess að vita að allir þeir fjármunir sem exbé hefur eytt í fokdýrar sjónvarpsauglýsingar eru þá glataðir með kistulagningu þessarar hugmyndar.

Hv. þm. Hjálmar Árnason ræddi mikið um það að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson útlistaði hversu arfavitlaus og í raun og veru sjálfdauð hugmyndin um flugvöll úti í miðjum Skerjafirði væri vegna þess að ef hagkvæmt væri að fylla þar upp í hálfan flóann með landfyllingu og grjótverja hana hlyti að vera enn hagkvæmara að byggja þar íbúðarhús heldur en flugvöll. Það má til sanns vegar færa. En ég vil bara biðja menn að hugleiða þó ekki væri nema eitt í því sambandi öllu saman og það eru gróðurhúsaáhrifin og hækkandi sjávarborð sem ískyggilegar spár standa nú til að verði á næstu áratugum. Þeir þurfa þá að bæta eitthvað ofan á garðana, exbé-mennirnir, ef svo fer sem horfir að sjávarborð hækki um sentímetra og jafnvel tugi sentímetra á ótrúlega skömmum tíma ef verstu spár um bráðnun jökla ganga eftir.

Í öðru lagi ræddi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson um fullgilt mál sem er spurningin um rekstrarfyrirkomulag starfseminnar í Keflavík vegna ummæla hæstv. utanríkisráðherra auðvitað. Ég hlýt að láta það eftir mér, úr því að stjórnarliðar taka það upp, að nefna það í eins og einni eða tveimur setningum að hæstv. utanríkisráðherra hefur varpað þeirri sprengju inn í þessa umræðu að hann sjái fyrir sér einkavæðingu á þessu mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar. Það skal vera alveg á hreinu af okkar hálfu að í því að stuðla að afgreiðslu þessa máls, fyrst og fremst vegna starfsmannanna sem í hlut eiga, er ekki fólginn stuðningur, nema síður sé, við einhverja óra hæstv. utanríkisráðherra um að einkavæða millilandaflugvöllinn og reksturinn þar. Slíkt væri glapræði og fáránlegt að þjóðin afsalaði sér eignarhaldi og rekstri á sínu mikilvægasta samgöngutæki sem millilandasamgöngurnar eru en eins og kunnugt er fara um 95–98%, ef ég man rétt, af allri millilandaumferð um þennan flugvöll.

Það er út af fyrir sig líka á sínum stað að skoða þau mál sem hv. þingmaður nefndi um innheimtu á lendingargjöldum og öðru slíku og nú skal ég ekki segja hvernig þetta hefur nákvæmlega verið allra síðustu árin. Ég viðurkenni fúslega að ég er ekki alveg inni í því, eða hef ekki kynnt mér það, en svo mikið man ég að þegar flugmálaáætlun var sett á sínum tíma og lengi eftir það runnu miklir fjármunir af lendingargjöldum í Keflavík til uppbyggingar flugvalla annars staðar á landinu, það er alveg ljóst og á í sjálfu sér ekki að vera neitt feimnismál. Menn vissu alveg hvað þeir voru að gera þar enda var þá gríðarleg þörf fyrir uppbyggingu flugvalla vítt og breitt um landið og það undarlega fyrirkomulag við lýði, sem auðvitað er búið að vera stórundarlegt, að Íslendingar fengu rekstur þessa mikla millilandaflugvallar síns ókeypis, gratís, og höfðu af honum öll afnot en hirtu hins vegar tekjurnar og ráðstöfuðu þeim annað. Auðvitað gat það aldrei endað öðruvísi en þannig að menn yrðu að láta þetta stemma saman. Það góða við málið er það að þó að þarna sé um 1.400 millj. kr. rekstur að færast á íslenskan ríkisreikning þá eru miklar og vaxandi tekjur á móti. Það vantar ekki mikið upp á að þessi starfsemi verði sjálfbær og að því ber að stefna. Ef spár bresku spástofnunarinnar sem gerði úttekt á þessu — ég man ekki nákvæmlega hvað hún heitir, en ég las og skoðaði þær spár núna fyrir nokkrum mánuðum — ganga eftir um allt upp í þriggja milljóna farþega umferð um Keflavíkurflugvöll innan ótrúlega skamms tíma og tilheyrandi tekjuvöxt, þá væntanlega í lendingar- og þjónustugjöldum, munu miklir fjármunir koma í kassann. Við þurfum því ekki að vorkenna okkur, Íslendingar, þó ekki væri, að taka þennan rekstur á okkar herðar.

Að síðustu, frú forseti, vegna þess sem hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi hér í orðaskiptum við hv. þm. Atla Gíslasonar um málefni starfsmanna. Ég vil leggja áherslu á að kjarasamningar og lögvarin réttindi starfsmanna eru eðli málsins samkvæmt lágmarksréttindi. Það er strípaður botninn. Og það er alsiða að gera betur við menn ef aðstæður mæla sérstaklega með því. Það er bókstaflega ekkert sem hindrar stjórnvöld í því að ræða við starfsmenn sem þarna eiga í hlut og ganga með einhverjum sérstökum hætti frá málum við þá, og það er alsiða. Það stendur ekkert í vegi fyrir ríkisstjórninni og ráðherrunum að gera betur en lögvarin lágmarkslaun kveða á um við toppana þegar þeir eiga í hlut. Þá er hægt að gera myndarlega starfslokasamninga eða hvað, hv. þm. Bjarni Benediktsson? Auðvitað mælir ýmislegt með því að þarna kunni að vera rétt og sanngjarnt að taka sérstaklega á málum vegna þeirrar óvissu sem menn hafa búið við, vegna þess að um sérhæfð störf er að ræða og þarna eiga margir starfsmenn í hlut sem hafa unnið áratugum saman hjá sama vinnuveitandanum við sömu störfin og eiga kannski ekki hægt um vik nokkrum árum fyrir venjulegan starfslokaaldur að breyta þar til ef þeir fá ekki endurráðningu — og ég legg áherslu á þetta.

Skilningur Sjálfstæðisflokksins á jafnræðisreglu í stjórnsýslu er orðinn undarlegur ef menn leggja alltaf þann skilning í hana að allt skuli jafna niður á botninn. Er það sem sagt orðin viðtekin skýringarvenja hjá Sjálfstæðisflokknum þegar jafnræðisreglur eiga í hlut þegar hitt er jafnljóst að hér er um lágmarksréttindi að ræða. Kjarasamningar, eins og lög reyndar binda á Íslandi, eru eðli málsins samkvæmt lágmarksréttindi. Það er bannað að gera verr við menn en það er ekki bannað að gera betur og er iðulega gert. Þegar réttir aðilar eiga í hlut hefur ekki staðið á hinum feitu starfslokasamningum. Þótt ég ætli ekki að fara að gera orð hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, hv. 9. þm. Suðurk., að mínum — hann ber ábyrgð á því sem hann lagði til umræðunnar — vil ég að gefnu tilefni gera þessar athugasemdir um þessa hlið mála og endurtek kröfu okkar um að gengið verði í að ræða við starfsmenn, það verði gert af sanngirni.

Að lokum ítreka ég spurningu mína til hæstv. utanríkisráðherra, sem ég veit að hann hefur skrifað hjá sér og mun bregðast við í lokin: Þarf að orða þetta svona í upphafi 1. málsliðar ákvæðis til bráðabirgða: „Eftir því sem við verður komið …“? Af hverju er ekki hægt að hafa þetta einfalt, eins og t.d. lögin um aðilaskipti að fyrirtækjum gera skylt? Þegar um það er að ræða, samanber evrópskar reglur þar um, eru mönnum tryggð óbreytt kjör og óbreytt réttindi og störf af hálfu hins nýja aðila. Það er lögvarið að hinn nýi vinnuveitandi, sem yfirtekur fyrirtækið, skal virða allar skyldur fyrri eiganda þess. Það má að mörgu leyti líta á þetta sem hliðstæðu eins og hv. þm. Jón Gunnarsson benti mér á áðan þó það sé sennilega ekki svo að lögum að þetta falli undir lögin um aðilaskipti. En efnislega og út frá sanngirnisástæðum má vel líta svo á og þá væri langeinfaldast að orða þetta í upphafi ákvæðis til bráðabirgða á þann veg að öllu því starfsfólki sem þess óskar skuli bjóða endurráðningu.