132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[16:03]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil síst deila á fundarstjórn forseta en vil þó geta þess að stundum eru ræðumenn býsna snöggir að ljúka ræðu sinni úr ræðustóli þannig að það kann að vera rétt hjá forseta að menn biðji um andsvar eftir að ræðumaður er stiginn úr stólnum. Mér finnst að það megi taka tillit til þess. En ég deili ekkert við forseta um ákvörðun hans og tel því rétt að biðja bara um ræðu í staðinn því að ég hef engan áhuga á að taka til máls á einhverri undanþágu sem almennt gildir þá ekki um aðra þingmenn.

En það sem mig langaði að spyrjast nánara fyrir um — ég vil nú þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin. Það er alveg ljóst að sú breyting sem gerð er á 3. gr. í frumvarpinu um lendingargjöld hefur ekki áhrif á fjárveitingu til framkvæmda í flugmálaáætlun þannig að tekið verði af skarið með það atriði og það að kveða á um að lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli renni til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar hefur enga breytingu í för með sér frá því sem verið hefur.

Það er þá hitt atriðið sem ég velti fyrir mér um skipulagið. Þegar búið er að koma á fót þessari nýju stofnun, Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, og móta stefnu ríkisstjórnarinnar um Flugmálastjórn Íslands og stofnun hlutafélags um flugvallarrekstur og flugleiðsöguþjónustu Flugmálastjórnar Íslands er eðlilegt að menn vilji fá skýr svör um hvað ríkisstjórnin ætlar sér með þessa nýju stofnun. Ég spyr því hvort það sé þá rétt skilið hjá mér að ekki séu áform um það nú að gera breytingar á því frumvarpi sem þingið er með til meðferðar til að menn geti tekið þessa sérstöku stofnun sem nú verður stofnuð síðar undir hlutafélagavæðinguna. Mér sýnist á frumvarpinu um stofnun hlutafélags að það sé þannig orðað að heimild sé til að stofna hlutafélag um flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands sem kann þá hugsanlega að ná yfir þessa sérstöku stofnun annaðhvort óbreytt eða með lítilli breytingu á því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar í þinginu.

Ég spyr því hvort það sé rétt skilið að ekki sé áformað að gera ráðstafanir til breytinga á þessum frumvörpum til að unnt verði að fella þessa nýju stofnun undir hlutafélagið sem á að stofna. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá það skýrt svo það liggi þá fyrir að menn séu að taka ákvörðun um nýja stofnun til einhvers tíma en ekki bara til nokkurra mánaða.

Ég tel ekki ástæðu til að skiptast á orðum við ráðherra um það sem hann sagði í umræðunni um daginn. Það stendur allt á sínum stað og menn geta flett því upp.