132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

(Framhaldsskólar.

711. mál
[16:11]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla efnislega um málið í framsögu minni á eftir. Ég fagna því að sjálfsögðu mjög eindregið að það sé að verða að lögum að samræmd stúdentspróf heyri sögunni til. Eftir þriggja ára þras menntamálaráðherra um þetta mál er ég að sjálfsögðu mjög ánægður með að málið skuli hafa fengið þennan framgang á þinginu núna í vor enda var samstaða um það í nefndinni. Þetta gekk mjög hratt og skjótt fyrir sig og var unnið vasklega og málið er á lokasprettinum og samræmdu stúdentsprófin heyra sem betur fer sögunni til núna á þessum fallega maídegi.

Ég vildi spyrja hv. formann nefndarinnar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, hvort hann væri ekki til í að taka undir það að þetta væri vísir að því að um leið og við lýsum því yfir að samræmdu stúdentsprófin hafi verið vond hugmynd, framkvæmdin hafi mistekist og við leggjum þau núna af sem stórt skref í okkar skólamálum, að við eigum einnig að endurskoða með gagnrýni samræmd lokapróf í 8., 9. og 10. bekk grunnskólans, próf sem núna standa yfir og ég tel orka mjög tvímælis og tek undir gagnrýni sem hefur komið fram áður þar sem því er oft haldið fram að þau mæli síst það sem mestu máli skiptir sem er færni í mannlegum samskiptum og lífsleikni hvers konar. Ég held að í praxís séu þau lítið annað en inntökupróf í framhaldsskólana og til þess mjög vafasamt tæki, aðrar leiðir færari og sanngjarnari til að taka nemendur inn í framhaldsskólana og velja heldur en þau. Ég tel sjálfur að við eigum að leggja af samræmd lokapróf í grunnskólum eins og í framhaldsskólum. Ég er eindregið á þeirri skoðun og vísa því þeirri spurningu til hv. formanns menntamálanefndar, sem svo skörulega gekk fram í því að gera út um samræmd stúdentspróf í framhaldsskólunum með okkur í öðrum stjórnmálaflokkum á Alþingi þar sem þverpólitísk samstaða myndaðist loksins um málið eftir þriggja ára þóf hæstv. menntamálaráðherra.