132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Framhaldsskólar.

711. mál
[16:15]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að hinn vaski og víðsýni formaður menntamálanefndar útiloki það alls ekki að lokapróf í grunnskólum heyri sögunni til, megi það verða til að bæta menntakerfi okkar sem ég er sannfærður um að það mundi gera þó svo samræmt lokapróf í grunnskólum séu að sjálfsögðu ekki alslæm. Þau hafa klárlega kosti og galla eins og öll önnur mannanna verk.

Ég tel að grunnskólakerfi okkar hafi þróast með mjög jákvæðum hætti sérstaklega á síðustu 10 árum eftir að starfsemi grunnskólans var flutt til sveitarfélaganna þar sem má segja að grunnskólastigið hafi að mörgu leyti sprungið út og tekið miklum framförum. Það er mjög spennandi og skemmtilegt að fylgjast með þróun mála í grunnskólanum hér á landi sem er í stórum dráttum fjölbreyttur, litríkur og góður. En lengi má gott bæta og við eigum að sjálfsögðu að stefna fram á við og stefna að miklu betri grunnskóla þar sem börnin okkar fá enn betri menntun. Það eru allt of mörg börn sem ekki koma nógu vel undirbúin út úr skólunum, t.d. eins og oft vill gerast að þeim hlekkist á á unglingastiginu og ná ekki nógu góðum árangri á samræmdu lokaprófunum í þeim tilteknu greinum sem prófað er í sem verður oft til þess að þeir unglingar lenda einhvern veginn utan gátta í samfélaginu, lenda utan skólasamfélagsins, skila sér ekki inn í framhaldsskólann eða falla fljótlega þaðan á brott af almennum brautum sem þau fara á eftir að hafa fallið á hinum samræmdu prófum.

Ég held að samræmdu prófin, lokaprófin í grunnskólunum geti líka valdið tilteknum skaða hjá þeim unglingum sem eru viðkvæmari og ekki eins vel undirbúnir og ég held að við eigum að leggja þau af eða stefna að því og vinna að því. Þess vegna fagna ég því að hv. formaður menntamálanefndar taki ágætlega undir þá hugmynd megi það verða til að bæta menntakerfið.