132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Framhaldsskólar.

711. mál
[16:51]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. VG fagnar því að samræmd stúdentspróf verði felld niður með þessu frumvarpi og styður það eindregið. Eins og hér hefur komið fram hefur þetta verið kveðin þráhyggja á liðnum árum, ákveðin miðstýringarárátta, ákveðin forræðishyggja. Þess vegna fagnar maður sérstaklega þessum sinnaskiptum. Við teljum enn fremur ástæðu til að horfa alvarlega á samræmdu prófin í grunnskólum. Ég hef að mörgu leyti jafnvel meiri áhyggjur af þeim en samræmdu stúdentsprófunum vegna þess að þau geta haft mun afdrifaríkari áhrif varðandi framhaldsnám, eins og hér hefur verið lýst af hv. þingmanni Björgvini G. Sigurðssyni, heldur en samræmdu stúdentsprófin, mun afdrifaríkari afleiðingar, þótt ekki sé annað en það að 14 ára krakkar eru ekki öll 14 ára að þroska. Þau eru afar misjöfn að þroska á þessum árum, bæði stúlkur og drengir, þannig að hin samræmda mæling getur orðið afar misvísandi.

Það kom líka fram að niðurstöður samræmdra prófa þurfi útskýringa við í hverju tilviki, að skýra þurfi út hverja mælingu og skýra út sérstaklega hvern skóla, það kunni að vera mjög margar breytur innan einstakra skóla sem geti haft veruleg áhrif á niðurstöður samræmds prófs. Niðurstöðurnar eru nánast afstæðar á mörgum sviðum. Ég minnist þess í máli þeirra sérfræðinga sem kallaðir voru á fund nefndarinnar og gáfu afar fræðandi yfirlit yfir þessar niðurstöður að einhver þeirra sagði að það sem virtist vera slök niðurstaða hjá skóla á samræmdu próf gæti þvert á móti sýnt að skólinn hefði sýnt miklar framfarir, að niðurstaða sem virðist slök sé bara alls ekkert slök. Þessi samræmdu próf orka því ekki bara tvímælis, ég hygg að þau séu afdráttarlaust röng aðferð til að meta fólk inn í skóla.

Þessi einhuga niðurstaða nefndarinnar er auðvitað í fullu samræmi við stefnu Vinstri grænna í menntamálum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur gefið út afar ítarlega menntastefnu sem samþykkt var á landsfundi flokksins 2005 þar sem farið er ítarlega yfir stefnu okkar í þessum málum og þetta frumvarp samræmist því ágætlega vel. Það er eins með þessa menntastefnu og í öðrum málum að við erum með hreinar línur. Við erum með hreinar línur í menntamálum eins og öðrum í málum, línur og stefnu sem við getum gengið að í hverju málinu á fætur öðru, heilsteypta og heildstæða menntastefnu. Við Vinstri grænir styðjum þetta frumvarp og munum greiða atkvæði með því.