132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Framhaldsskólar.

711. mál
[16:55]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Rétt er að fara örfáum orðum um það nefndarálit sem hér kemur frá menntamálanefnd í þessu mikilvæga máli. Ástæðan er sú að ég var ekki viðstaddur fundinn þegar málið var afgreitt en ég lýsi auðvitað yfir fullum stuðningi við það álit sem hér liggur fyrir. Ég vil í fyrstu vekja sérstaka athygli á greininni sem fjallar um bóknámsbrautir, þ.e. að heiti þeirra séu sett í lög. Ég tel að það sé í raun og veru óþarft og jafnvel hamli gegn þróun framhaldsskólans og vek athygli á því að nefndin beinir því til hæstv. menntamálaráðherra að það verði tekið til sérstakrar athugunar að afnema þessa lögbindingu. Slík lögbinding tefur það m.a. að stofnaðar séu brautir í skólunum sem á auðvitað að vera val skólanna sjálfra, löggjafinn á ekki að ganga fram með slíkri miðstýringu að ákveða hvernig nám er nákvæmlega samsett á einstökum brautum. Það er nauðsynlegt að fara yfir þetta og er eðlilegt á þessu stigi að nefndin vísi þessu í þennan farveg þar sem nú er starfandi nefnd sem er að skoða framhaldsskólalögin í heild. Það er eðlilegt að sú nefnd skoði þetta og með hvaða hætti eðlilegast væri að breyta þessu.

Það var hins vegar nauðsynlegt að afnema hin samræmdu stúdentspróf sem hafa í raun og veru verið hálfgerður brandari eða bastarður í lögunum. Það hefur raunverulega aldrei tekist að framkvæma þau og sýnir í hnotskurn hversu mikilvægt það er að slíkar lagabreytingar og framkvæmdir séu í fullu samræmi við skólasamfélagið. Þarna varð aldrei taktur á milli og það var í raun og veru ekkert með þessi samræmdu stúdentspróf að gera. Þau voru valkvæð, þau skiptu engu máli. Nemendur sýndu hug sinn í verki til þeirra með því að mæta og skila auðu eða mæta hreinlega ekki og háskólarnir gerðu akkúrat ekkert með þessi samræmdu stúdentspróf. Það var því ekkert annað að gera og í raun og veru gafst hæstv. menntamálaráðherra upp í þessari baráttu sinni við vindmyllurnar og hefði betur gert það löngu fyrr, því að ég er hræddur um að illa hafi verið farið með það almannafé sem fór til þess að standa undir kostnaði við þá framkvæmd sem ætíð var í skötulíki. Þess vegna er eðlilegt að því sé sérstaklega fagnað að nú skuli sú leið farin að fjarlægja þetta ákvæði úr lögunum.

Þetta hefur orðið til þess að hér hefur nokkur umræða átt sér stað um samræmd próf í grunnskólum. Það er auðvitað full ástæða til að ræða þau og ekki síst vegna þess að nú þegar við ræðum afnám samræmdra stúdentsprófa standa einmitt yfir þessa dagana samræmd próf við lok grunnskóla eða í 10. bekk. Vonandi skoðar sú nefnd sem einnig er að störfum við að endurskoða grunnskólalögin í heild sinni það sérstaklega með hvaða hætti mat á að fara fram í grunnskólum. Færð hafa verið margvísleg rök fyrir því að samræmd próf í grunnskóla, a.m.k. í þeirri mynd sem þau eru nú, séu óþörf og vinni jafnvel gegn ákveðinni þróun í skólastarfi.

Ég man þessa umræðu nokkuð langt aftur í tímann, hún hefur í raun staðið yfir alveg frá því að þessi próf voru sett á og það hafa ætíð verið miklar gagnrýnisraddir gagnvart þeim. Meðal annars var sá rökstuðningur alveg frá upphafi að þau væru of stýrandi fyrir skólastarfið. Við sem höfum kennt við þessa skóla vitum að það er þannig í aðdraganda samræmdra prófa að skólarnir taka breytingum og taka meira og minna mið af þessum prófum, að kennsla í þessum greinum tekur meira og minna mið af því í allt of langan tíma í hverju er raunverulega prófað í samræmdu prófunum. Ef við tökum t.d. eina af þeim greinum sem prófað er í, íslenskuna sjálfa, þá er ekki prófað þar í þeim þætti sem við notum hvað mest, þ.e. í mæltu máli. Þetta eru auðvitað afskaplega einhæfar mælistikur sem þarna eru notaðar og raunverulega ekki mikið í tengslum við hið daglega líf eða það sem við tekur að grunnskóla loknum.

Það er líka annar rökstuðningur fyrir því að þetta eigi ekki að vera í þeirri mynd sem það er í dag. Samræmdu prófin eru eingöngu í bóklegum greinum og með því er verið að gefa ákveðin skilaboð til nemenda um að þær séu að einhverju leyti merkilegri en aðrar greinar sem kenndar eru við skólana, sem er auðvitað víðs fjarri. Þegar þetta er grannt skoðað held ég að þetta sé hluti af þeim vanda sem við sjáum í framkvæmdinni í framhaldsskólunum, þ.e. að allt of stór hluti nemenda, eins og við vitum, fer í bóklegt nám en ekki í hið verklega. Við þurfum töluvert að vinna í þeim málum til að breyta þeim hlutföllum. Það er alveg klárt mál að þetta hefur áhrif.

Við skulum þó ekki gleyma því að það hefur aðeins verið gefið eftir varðandi samræmdu prófin því að þau eru a.m.k. í orði kveðnu valkvæð núna, þ.e. nemendur eru ekki skikkaðir til að fara í þau heldur geta þeir valið og þurfa ekki heldur að fara í þau öll. Hins vegar hafa framhaldsskólarnir sett ákveðin ákvæði um hvaða próf nemendur þurfa að hafa farið í og staðist til að fara inn á ákveðnar brautir í framhaldsskólunum. Nemendur geta hins vegar farið í framhaldsskóla þrátt fyrir að hafa ekki tekið nein samræmd próf sem sýnir að baráttan gegn þeim hefur skilað ákveðnum hlutum. Ég held að það sé full ástæða til að grandskoða þetta og tel að hinar neikvæðu hliðar séu miklu stærri en hinar jákvæðu þannig að þessi próf eigi ekki rétt á sér.

Eins og ég sagði áðan, frú forseti, stendur yfir í nefndarstarfi heildarendurskoðun grunnskólalaga, framhaldsskólalaga og leikskólalaga. Eins og fram kom í ræðu áðan boðaði hæstv. menntamálaráðherra það sérstaklega eftir að gengið var frá sérstökum samstarfssamningi við Kennarasamband Íslands að búast mætti við því á vordögum að fram kæmi frumvarp varðandi styttingu framhaldsskólans og útfærslu á þeim hugmyndum. Nú blasir það við og samkvæmt heimildum sem ég hef eru engar líkur á því að það muni neitt liggja fyrir, að sjálfsögðu ekki fyrir hléið sem ákveðið hefur verið að taka og það mun væntanlega ekki heldur neitt koma á sumarþingi varðandi málið. Það mun ekki vera fyrr en í fyrsta lagi á haustdögum sem eitthvað mun skila sér í þingið. Er það auðvitað vel vegna þess að eins og við sjáum varðandi það mál sem við ræðum, samræmdu stúdentsprófin, að ef það er ekki taktur við skólasamfélagið munu hlutirnir ekki ganga fram. Það er auðvitað gífurlega mikilvægt þegar verið er að vinna að heildarendurskoðun laga að fullt samráð sé þarna á milli og reynt að ná sem allra mestri sátt.

Það hefur verið aðeins rætt hér að þessi tegund prófa sýni ákveðna miðstýringaráráttu. Það er ekkert vafamál að það er hægt að miðstýra mjög með samræmdum prófum hvort sem er í framhaldsskólum eða grunnskólum. Með því m.a. að velja hvaða greinar prófað er í er verið að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri bæði við nemendur og skólana þannig að það er auðvitað ákveðin stýring falin í því.

Á vordögum kom til umræðu í þinginu frumvarp sem tengist grunnskólanum sem sýnir miðstýringaráráttuna í mjög svæsinni mynd. Meiri hluti menntamálanefndar hefur afgreitt það mál meira að segja út úr nefndinni án þess að gera breytingar á því ákvæði þar sem miðstýringin kemur hvað svæsnast fram. En þar er verið að boða það varðandi grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum að sveitarfélögin séu skikkuð til að greiða ákveðna fjármuni sem eru viðmiðanir í prósentum við meðalkostnað grunnskóla á landinu til slíkra skóla. Ég verð að segja að umræðan hefur aldrei náðst almennilega hvorki í þingsal né í menntamálanefnd um prinsippin í málinu vegna þess að svo heittrúaðir eru sumir hv. þingmenn gagnvart fyrirkomulaginu á rekstri grunnskólanna að prinsippumræða næst aldrei fram. Það er auðvitað sérstaklega athyglisvert vegna þess að þrátt fyrir að á fund menntamálanefndar hafi t.d. komið virtasti og líklega reynslumesti sveitarstjórnarmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi oddviti flokksins í framboði til borgarstjórnar í vor sem fór mjög vandlega yfir hin mikilvægu samskipti ríkis og sveitarfélaga, þá hafa menn ekki komist frá því sjónarhorni sem tengist trúarbrögðum varðandi rekstur grunnskóla, menn hafa ekki áttað sig á því að það er verið að ganga svo langt gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga að það er gengið á svig við þá þróun sem búið er að byggja upp áratugum saman í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga lýsir því t.d. yfir mjög skorinort í umsögn sinni að þarna sé freklega gengið á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og í raun hrein og klár móðgun við sveitarfélögin sem sjá um rekstur grunnskólans að taka eigi ákvarðanir um slíka þætti á Alþingi, þ.e. í lögum, í lagaboði en ekki í samningum milli sveitarfélaga og viðkomandi aðila. Menntamálanefnd hefur tekið þetta út og ég trúi því ekki að þetta muni koma í þingsal aftur vegna þess að mér finnst ólíklegt að hv. þingmenn Sjálstæðisflokksins vilji á svo hastarlegan hátt ganga gegn oddvita sínum í borgarstjórnarkosningum sem fram fara eftir nokkrar vikur.

Frú forseti. Ég ber þá von í brjósti að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru með því nefndaráliti sem hér liggur fyrir og við ræðum að ganga örlítið til baka í miðstýringaráráttu sinni muni gera slíkt hið sama hvað varðar grunnskólann og að þau mál sem ég nefndi áðan fari í þá nefnd sem er að endurskoða grunnskólalögin í heild sinni og niðurstaðan verði miklu vænlegri en sú sem meiri hluti menntamálanefndar komst að um daginn.