132. löggjafarþing — 115. fundur,  4. maí 2006.

Svar við fyrirspurn.

[19:46]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á Alþingi í dag var dreift svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn minni og hv. þm. Jóns Gunnarssonar þar sem enn einu sinni er staðfest verulega aukin skattbyrði á fólk með lágar og meðaltekjur í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þar kemur fram að skattbyrði hjóna með tvö börn undir sjö ára aldri og 260 þúsund kr. í samanlagðar mánaðartekjur er tvöfalt meiri nú á árinu 2006 en hún var á árinu 1995 miðað við jafngildar tekjur miðað við launavísitölu. Á 300 þús. kr. tekjur hjóna hefur skattbyrðin þrefaldast á þessu tímabili. Í svarinu eru sýndar sex mismunandi launaforsendur allt frá 200 þús. kr. tekjum í 420 þús. kr. tekjur hjóna og allar þessar launaforsendur sýna mikla aukningu skattbyrði á þessu 11 ára tímabili. Sama gildir um skattbyrði einstaklinga með tekjur frá 100–210 þús. sem um var spurt. Alls staðar hefur aukin skattbyrði, mest á 130 þús. kr. tekjur einstaklinga þar sem skattbyrðin hefur gott betur en þrefaldast og á 150 þús. kr. tekjur þar sem skattbyrðin hefur tvöfaldast miðað við jafngildar tekjur á árinu 1995.

Fjármálaráðherra hefur sjálfur með þessu svari staðfest að fjármálaráðherrar íhaldsins, þeir Friðrik Sophusson, Geir H. Haarde og Árni Mathiesen eru mestu skattpíningarráðherrar Íslandssögunnar þegar láglaunafólk og fólk með meðaltekjur á í hlut. Þetta hefur aftur og aftur verið staðfest m.a. af Stefáni Ólafssyni prófessor sem glögglega hefur dregið upp hvernig skattbyrði aldraðra og öryrkja hefur vaxið gífurlega sem er þessari ríkisstjórn auðvitað til háborinnar skammar.

Nú spyr ég ráðherrann: Ætlar hann enn einu sinni að berja hausnum við steininn nú þegar hann sjálfur hefur staðfest í annað sinn á þessum vetri í svörum sínum aukna skattbyrði á fólk með lágar og meðaltekjur og ætlar hann að halda áfram að þrástagast á þeirri blekkingu að skattbyrði fólks hafi lækkað þó annað sé aftur og aftur staðfest, að skattar hafa hækkað, hækkað og hækkað á fólk með lágar og meðaltekjur? Ég skora á ráðherrann að hætta þessum blekkingum og viðurkenna sannleikann.