132. löggjafarþing — 115. fundur,  4. maí 2006.

Svar við fyrirspurn.

[19:48]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Þegar fyrirspurnir eru bornar fram gefur fyrirspyrjandi upp ákveðnar forsendur sem hann óskar eftir að reiknað sé eftir. Ef forsendurnar eru rangar þá mun koma út röng niðurstaða. Það getur verið að það sé rétt reiknað en eftir röngum forsendum fá menn ranga niðurstöðu jafnvel þó að fjármálaráðherra mundi reikna.

Það eru til tvær leiðir til að mæla áhrif skattalækkana ríkisstjórnarinnar. Annars vegar er það að bera saman nafnvirðistölur og fá þannig út niðurstöðu en hin leiðin er að bera saman tölur á sama verðgildi eftir uppfærslu með verðlagsvísitölu. Það er reyndar sú leið sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði í blaðagrein fyrir ekki löngu síðan að væri eina, nota bene, eina rétta leiðin til að meta skattalækkanir ríkisstjórnarinnar.

Í þessari fyrirspurn biður hv. þingmaður um að skattbyrði sé reiknuð á tölur bæði með framreikningum og afturreikningum með launavísitölu. Þegar menn eru að reikna með launavísitölu þá er ekki bara verið að taka inn í dæmið breytingar vegna breytinga á skattalögum heldur líka breytingar vegna þess hvernig laun hafa þróast í landinu sem eru þá líka breytingar sem hafa orðið á hagvextinum og gengi fyrirtækjanna og launþeganna í landinu. Það er auðvitað hægt að bera saman á þessum forsendum en þá eiga menn að bera þetta saman á grundvelli kaupmáttar ráðstöfunartekna því þá koma allir þættirnir inn í dæmið, þ.e. hvernig hagvöxturinn og hækkuð laun hafa áhrif og skattarnir líka.

Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir leggur málið upp og gefur upp forsendurnar þá er verið að bera saman epli og appelsínur, þá er verið að bera saman hærri laun við lægri laun. Og það er alveg sama þótt rétt sé reiknað hjá fjármálaráðuneytinu, ef gefnar eru rangar forsendur þá kemur út röng niðurstaða því það er ekki hægt að bera saman epli og appelsínur, hærra og lægra eins og það væri það sama, frú forseti.