132. löggjafarþing — 115. fundur,  4. maí 2006.

Svar við fyrirspurn.

[19:57]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Rangar forsendur kallar hæstv. fjármálaráðherra skattastefnu sína, Geirs H. Haardes og Friðriks Sophussonar í fjármálaráðuneytinu og hann hefur hárrétt fyrir sér því það eru rangar forsendur að skapa heimilunum í landinu að auka álögur á hina lægst launuðu með því að halda niðri persónuafslættinum en létta sköttunum af hátekjufólki. Það eru rangar forsendur að skerða vaxtabæturnar þannig að þúsundir manna verði af þeim einmitt nú þegar vextir og verðbætur eru að fara upp úr öllu valdi. Það eru rangar forsendur, virðulegur forseti, skattapólitík ríkisstjórnarinnar.

Það hefur komið fram hjá Háskóla Íslands og hæstv. fjármálaráðherra sagði að háskólinn kynni ekki að reikna. Það kom fram hjá Kastljósinu og hæstv. fjármálaráðherra sagði að Kastljósið kynni ekki að reikna og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, sagði alþjóð að víst hefðu þeir vitandi vits hækkað skattana og enn sagði hæstv. fjármálaráðherra að Einar Oddur kynni þá trúlega ekki að reikna og nú bætir hann um betur og vefengir útreikninga síns eigin ráðuneytis á skattbyrði á Íslandi. En er ekki kominn tími til þess, hæstv. fjármálaráðherra, að sýna þann pólitíska kjark og manndóm að gangast einfaldlega við þeirri stefnu, þeirri pólitísku stefnu sem hefur verið fylgt fram af kulda og hörku í 11 ár samfleytt, að auka álögur á hina lægst launuðu, ekki síst á lífeyrisþegana í landinu en létta þeim af hátekjumönnum og eignafólki með skipulegum hætti? Það er mál að linni og tími til kominn að skipta um stjórn í þessu landi.