132. löggjafarþing — 115. fundur,  4. maí 2006.

Svar við fyrirspurn.

[19:59]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er aldeilis ótrúlegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra afneita því að skattar hafi hækkað á fólk með lágar og meðaltekjur þrátt fyrir að fjármálaráðherrann sjálfur hafi í tvígang á þessum vetri lagt fram svör við fyrirspurnum sem staðfesta að hann hefur sagt ósatt við þing og þjóð þegar hann aftur og aftur heldur því fram að skattar hafi almennt lækkað á fólki í landinu. Í marsmánuði í fyrra sagði ráðherrann þegar spurt var um tekjuhærri hópa að skattar hefðu hækkað hjá öllum hópum nema hjá hátekjufólki en þar höfðu þeir lækkað um 25%. Það er nefnilega þannig og það er staðreynd málsins að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar svokallaðar hafa verið þannig fram settar að þær hafa fyrst og fremst gagnast fólki með háar tekjur. Staðreynd sem við stöndum frammi fyrir og staðfest hefur verið aftur og aftur, t.d. af hagfræðingi Samtaka aldraðra og Stefáni Ólafssyni prófessor, að þó einhverjar litlar hækkanir á lífeyrisbótum öryrkja og aldraðra hafi komið í tíð þessarar ríkisstjórnar þá er það jafnharðan tekið aftur með aukinni skattheimtu. Þetta er sannleikur málsins. Samt stendur hæstv. ráðherra hér og neitar sannleikanum, ætlar sér aftur og aftur að slá ryki í augu fólks en við stöndum frammi fyrir því að fólk er hætt að trúa hæstv. ráðherra. Það sjá allir í gegnum þann blekkingavef sem hæstv. ráðherra hefur spunnið.

Það er alveg ljóst að í svari ráðherrans kemur fram að skattbyrði á fólk með lágar og meðaltekjur hefur tvö- til þrefaldast í tíð þessarar ríkisstjórnar sem er staðfesting á því sem hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) getur ekki neitað, að hann og fyrirrennari hans í starfi eru skattakóngar Íslands (Forseti hringir.) og eiga Íslandsmet í að auka skattbyrði á fólk með lágar og meðaltekjur. (Gripið fram í.)