132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[13:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er nú nokkuð snyrtilegt að takast skuli að byrja þetta þinghald eins og því lauk, í fullkomnu stjórnleysi og vitleysu. En hæstv. ríkisstjórn er lagin í þeim efnum og fótgönguliðar hennar eða handverksmenn, eða hvað maður á að kalla þá, sinna erindunum. Það gerðist náttúrlega dæmalaus uppákoma í gær í iðnaðarnefnd en hún á sér aðdraganda sem ég vil aðeins vekja athygli virðulegs forseta á.

Um miðjan maímánuð komu af því fréttir að frumvarp sem var til umfjöllunar og í miðri vinnslu í iðnaðarnefnd væri umfjöllunarefni í hrossakaupum ráðherra úti í bæ. Iðnaðarnefndarmenn vissu ekkert af þessu, að frumvarpið sem þeir voru að vinna með væri sérstakt samningsviðfangsefni stjórnarflokkanna eða ráðherra í ríkisstjórn. Ég held að niðurlæging þingsins, niðurlæging máls á forræði þingsins, hafi sjaldan birst með skýrari hætti. Síðan þarf að ryðja nefndina og setja nýjar atkvæðavélar inn til að koma málinu út. Er það nú samkomulag sem ráðherrarnir gera með þessum hætti. Stjórnarfrumvarp, eða frumvarp svo sem hvers sem væri, hefur fengið einhverja þá háðulegustu útreið sem ég man eftir í sögunni. Af öllum þeim mikla gestafjölda sem formaður nefndarinnar nefndi þá er það nefnilega svo að kannski einn eða tveir töldu að frumvarpið gæti gengið. Restin tætti það niður. Ríkisstjórnina varðar ekkert um slíkt og því miður ekki allt of marga þingmenn heldur.

Svo byrja menn þetta hér, (Forseti hringir.) frú forseti, án nokkurs samkomulags um svo mikið sem dagskrá funda. Ríkisstjórnin er sem sagt í öngstræti sínu (Forseti hringir.) og verður auðvitað að bera alla ábyrgð á því en það er heldur dapurlegt að þingið skuli þurfa í leiðinni að setja svona hrottalega niður eins og óumflýjanlegt er.