132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[13:49]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er með hreinum ólíkindum að sitja úti í sal undir ræðum hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar og hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur vegna þess að þau fara ekki rétt með það sem gerðist á nefndarfundi í gær. Það sem gerðist nákvæmlega var að sett var á svið leikrit þar sem tekið var á móti gestum, okkur er heimilað að kalla til gesti, en þegar því var lokið stóð aldrei til af hálfu meiri hlutans að fara í nokkra efnislega umræðu um málið vegna þess að búið var að semja um það utan nefndarinnar. Þingið setur verulega niður með slíkum vinnubrögðum. Við óskuðum eftir því í ljósi þeirra breytingartillagna sem fyrir lágu að við fengjum að kalla til þó ekki væri nema tvo, þrjá af þeim gestum sem höfðu gagnrýnt frumvarpið hvað harkalegast til að fara yfir breytingartillögurnar með þeim. Þeirri ósk var hafnað vegna þess að málið skyldi fara út fyrir klukkan fjögur eða fimm í gærdag. Það er bara staðreynd sem við verðum að horfast í augu við.

Frú forseti. Það er með hreinum ólíkindum að starfa á þinginu við þessar kringumstæður þar sem helmingaskiptakló ríkisstjórnarinnar er að hamla öllum lýðræðislegum verkferlum innan þingsins og hér er ekkert annað á ferðinni en hrein og klár sýndarmennska. Störfum þingsins og þingnefnda hefur verið gefið langt nef og starfi iðnaðarnefndar var í gær gefið langt nef.

Ég hef verulegar áhyggjur, frú forseti, af störfum okkar á þessu þingi ef þetta er upptakturinn. Ég ætla að segja það enn og aftur að kló þessarar helmingaskiptaríkisstjórnar er farin að seilast heldur langt inn í íslenskt samfélag og ég tel að við þurfum að hafa af því verulegar áhyggjur.