132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[14:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé ástæða til að hafa virkilegar áhyggjur af lýðræðislegri stöðu þingsins. Það var gert hlé á þingstörfum fyrstu vikuna í maí vegna sveitarstjórnarkosninga, sem rök voru fyrir. Síðan eru þingfundir hafnir að nýju án þess að nokkurt samráð eða samstarf sé haft innan þingsins við þingflokka um dagskrá eða tilhögun þingstarfanna. Þetta er fullkominn valdhroki að mínu mati sem hér er beitt. Við höfum starfsáætlun þingsins sem var samþykkt af forsætisnefnd á síðastliðnu hausti. Hún er löngu liðin. Hún rann út 4. maí og var í engu fylgt síðustu dagana.

Ég tel að það hafi verið lýðræðisleg skylda forseta að kalla forsætisnefnd og þingflokksformenn saman áður en hér væri gengið til dagskrár á ný og að sett yrði niður starfsáætlun um það sem ætti að gera. Menn geta deilt um mikilvægi einstakra mála. Menn geta deilt um forgangsröðun mála. Menn geta deilt um hvort hér á að taka einkavæðingarfrumvarpið á undan velferðarmálum fyrir aldraða eða sjúka. Menn geta deilt um það.

En að starfsháttum þingsins, lýðræðislegum starfsháttum þingsins, eiga allir þingflokkar að koma að. Þingið á ekki að starfa bara eftir tilskipun frá valdsjúkum ráðherrum heldur á það að standa vörð um lýðræðislega vinnu þingsins og á því ber forseti þingsins ábyrgð. (Forseti hringir.) Ég tel að hér hafi forseti ekki staðið sig.