132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[14:06]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt sem hv. stjórnarandstæðingar hafa sagt hér. Við skulum huga að virðingu þingsins. Þess vegna detta mér nú í hug orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, það sem hann sagði hér áðan, að það hefði þurft að ryðja nefndina, hann talaði til stjórnarliða eins og þeir væru einhver viljalaus verkfæri. (Gripið fram í.)

Ég vil upplýsa hv. þingmann um það, hæstv. forseti, að Gunnar Örlygsson og Kjartan Ólafsson höfðu lögmæt forföll þennan dag. Það gengur ekki að þingmenn tali svona hér hver til annars. Það gengur ekki og er ekki þinginu til sóma. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Á fundi iðnaðarnefndar í gær lögðum við til breytingartillögur á grundvelli umsagna og málflutnings gesta sem komu fyrir nefndina. Hv. stjórnarandstæðingar geta gert grín að því að við höfum kallað 40 gesti á fund okkar og farið yfir þær umsagnir sem um málið bárust, og við fórum vel yfir málið. Það er hægt að gera grín að því. En við höfum farið mjög ítarlega ofan í þetta mál og að tala til hv. þingmanna sem sátu í nefndinni og segja að þeir hafi ekki haft neitt vit á því sem þeir gerðu og hafi ekki vitað neitt um málið. Menn verða að átta sig á að þetta eru mál sem voru afgreidd úr stjórnarflokkunum. Eru menn þá að gera því skóna að hv. þingmenn kynni sér ekki þau mál sem þaðan eru afgreidd? Menn verða að halda virðingu Alþingis í þessu máli.

Hæstv. forseti. Ég hvet þingmenn til að róa sig niður í málflutningi hér. Það hafa stór orð fallið, kannski sérstaklega til þeirra ágætu þingmanna stjórnarmeirihlutans sem sátu í nefndinni og afgreiddu málið út úr nefnd. Það var talað um þá hv. þingmenn eins og viljalaus verkfæri. Ef hv. stjórnarandstæðingar telja það vera til eftirbreytni og sér til sóma að hafa slíkan málflutning uppi þá þeir um það. Hér er um mikilvægt mál að ræða sem stjórnarmeirihlutinn ætlar að afgreiða.