132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[14:11]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil orða það hér úr þessum ræðustól undir þessum lið hvort ekki hefði verið skynsamlegra af hæstv. forseta að taka upp viðræður við stjórnarandstöðuna um hvernig þessum málum yrði hagað, þó ekki hefði verið nema í þessari viku. Og reyna að ná einhverju samkomulagi um það fyrirfram hvernig málin gangi fram í þinginu. Því ég vona að hæstv. forseti muni hvernig málin gengu fyrir sig síðast þegar við vorum að ræða Ríkisútvarpsfrumvarpið hér í þinginu.

Þó ég telji ekkert eftir mér að vera hérna með ykkur í þinginu fram í júlímánuð, þá held ég að það hefði samt verið betra, hæstv. forseti, að það hefði verið sett á vinna, undir forustu forseta, við að reyna að koma málum þannig fyrir að það ríkti meiri sátt um málatilbúnað en sýnilega verður, eins og málum er fyrir komið. Ekki bætti gærdagurinn úr skák eins og umræðan hér á undan um störf þingsins bar með sér.

Ég hef áhyggjur af því, hæstv. forseti, að þessi vika skili engu afgreiddu máli frá þinginu. Ég held að verkstjórn forseta muni ekki leiða til að vikan nýtist til nokkurra skynsamlegra verka, annarra en þeirra að ræða hér deilumál milli stjórnar og stjórnarandstöðu, án þess að finna því nokkurn þann farveg sem líklegur væri til að við gætum horft til þess að hér verði unnið skipulega og eðlilega.

Þess vegna beini ég þeim tilmælum til hæstv. forseta, að endurskoða þetta vinnulag. Við sjáum fyrir okkur hvernig dagurinn í dag verður og honum verður sjálfsagt ekki breytt mikið úr þessu. En ég held að það væri óráð að hefja morgundaginn með sama lagi og hér hefur verið hafist handa í dag.