132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[14:14]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvort áttundi maður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og Nýsköpunarmiðstöðin tengjast á einhvern hátt. En ég vil hins vegar taka undir nauðsyn þess að unnið sé betur í því að skipuleggja störf þingsins. Það hefur verið ágætis tími til þess. Við erum búin að vera í þinghléi núna um nokkurt skeið. Flestir þingflokkar voru með fundi í gær og það hefði verið nauðsynlegt að þar lægi fyrir, ekki bara dagskrá dagsins í dag, heldur líka hvernig áætlanir eru varðandi störf þingsins í vikunni, þ.e. fundartíminn og þau dagskrármál sem á að ræða og hversu lengi fundir eiga að standa.

Ef slíkt er ekki gert má búast við því að hér verði erfitt fyrir okkur að koma og afgreiða mál og koma þeim í gegn, ef þingflokkarnir vita ekkert hver staðan er. Ég vil nú beina því til hæstv. forseta að hann upplýsi okkur um hversu lengi er áætlað að vera að verki í dag og hvaða mál á að ræða fyrir utan þau sex sem nú þegar er búið að setja á dagskrá.

Við þingflokksformenn héldum fund með hæstv. forseta kl. 1 í dag, hálftíma fyrir þingfund. Það er enginn möguleiki fyrir okkur að ræða við þingflokka okkar um það sem þar kom fram. Það eru auðvitað vinnubrögð sem eru fyrir neðan allar hellur. Þannig að ég vil nú beina því til hæstv. forseta að hann upplýsi okkur um hve lengi við ætlum að halda hér áfram í dag.