132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar, þinghaldið fram undan o.fl.

[14:38]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég verð að hefja mál mitt á því að lýsa yfir miklum vonbrigðum með hvernig fundi er stjórnað hér. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með fundarstjórn hæstv. forseta, Jónínu Bjartmarz, sérstaklega þegar hún er spurð hér spurninga — hvers vegna í ósköpunum svarar þá ekki hæstv. forseti? Ég átta mig ekki á því hvað fólki gengur til þegar það er spurt spurninga og á að stýra fundum. Hér er fundur í gangi og þingmenn spyrja spurninga, hvort eigi að halda fund og ræða málin, en það er eins og hæstv. forsetar séu of góðir til að svara spurningum sem hv. þingmenn beina til þeirra. Mér finnst þetta undarlegt, sérstaklega vegna þess að hæstv. forseti lét ekki svo lítið að ræða málið áður en boðað var til dagskrárinnar. Hvaða vinnubrögð eru þetta, að svara ekki spurningum, koma hérna með tilkynningu um dagskrá þingsins og fara síðan með rangt mál í ræðustól, segja að rætt hafi verið við alla flokka? Það er bara alrangt, það var ekkert rætt við Frjálslynda flokkinn, ekki einu orði í morgun, eins og kom fram í máli hæstv. forseta. Ég verð að segja (Gripið fram í.) að eftir að hafa hlýtt á mál hæstvirtra ráðherra Framsóknarflokksins og hvernig hæstv. forseti bregst við þeim fyrirspurnum sem beint er til hennar leyfi ég mér að halda það að framsóknarmenn séu rökheldir, það er alveg sama hvaða rök eru borin á borð fyrir hv. þingmenn Framsóknarflokksins, það skiptir engu máli. Við sjáum það í umræðu um nýsköpunarfrumvarpið, hver umsögnin á fætur annarri kemur og síðan þegar hér koma málefnaleg sjónarmið um hvort ræða eigi dagskrána eða ekki er því ekki svarað. Hvað á þetta að þýða? Mér finnst þetta ekki vera vinnubrögð til sóma. Við eigum einmitt að haga vinnubrögðum okkar á Alþingi þannig að þau geti verið fyrirmynd, bæði öðrum félögum og þess hvernig stjórnsýslan hagi vinnubrögðum sínum. Mér finnst það ekki vera í þessu tilliti, að geta ekki haldið lítinn fund og rætt málin, hvernig haga eigi störfum þingsins, heldur keyra málið áfram í blindni.

Ég treysti því, vegna þess að hæstv. forseti hefur áður orðið uppvís að því að gera mistök í byggðamálaumræðunni, þegar hún sleit fundi í trássi við fundarsköp Alþingis, að hún sjái að sér og haldi þennan litla fund og fari yfir málið. Menn geta varla verið það stórir þótt í forsetastóli séu að geta ekki haldið lítinn fund með þingmönnum og rætt málin, hvernig eigi að haga störfum þingsins.