132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar, þinghaldið fram undan o.fl.

[14:42]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Jú, það er akkúrat erindi mitt að ræða hér um fundarstjórn forseta. Í upphafi þings koma ríkisstjórnarflokkarnir sér saman um hvernig þingið skuli keyrt áfram og búa til starfsáætlun Alþingis. Hana er ég með fyrir framan mig. Ég hef einungis setið á Alþingi frá 1999 en þetta er í fyrsta skiptið sem maður sér að þessari áætlun hefur verið kastað fyrir róða, hún var gagnslaust plagg frá upphafi eins og komið hefur á daginn. Forsíðan er nánast það eina sem hefur staðist í þessari starfsáætlun, að þetta sé starfsáætlun Alþingis fyrir 132. löggjafarþing. Það sem stóð inni í henni hefur allt saman farið út og suður og hef ég áður gert því skil, virðulegi forseti, að nefndadögum var svissað til eftir „behag“. Ýmislegt annað var gert hérna og síðan var það kórónað þegar þingið var sent heim í aðdraganda og rétt fyrir kosningar af því að ríkisstjórn vildi ekki hafa okkur hér lengur, sendi okkur heim og svo á að koma saman í dag til þess að klára málin.

Ef ég hef skilið það rétt hefur komið hér fram að ríkisstjórnin er með á lista sínum rúmlega 100 mál sem á að afgreiða. Nú þegar við komum hingað til þings er það þannig að enginn veit hvaða áætlun liggur fyrir og engin starfsáætlun er um hvað skuli gera og ekkert samráð er reynt að hafa við stjórnarandstöðuna um hvernig þetta skuli sett áfram.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að gagnrýna og taka undir gagnrýni annarra þingmanna hvað þetta varðar. Það er nú einu sinni þannig að þingmenn búa líka til sína starfsáætlun eftir því hvað gera á hér á Alþingi. Oft hefur það komið fyrir að fundir eru settir á föstudögum og annað slíkt. Ég tók eftir því, virðulegi forseti, að hér áðan var sagt að þinghaldið þessa viku yrði eitthvað fram vikuna. Má ég spyrja, virðulegi forseti, og fá svar við því: Er ætlunin að halda fund hér á föstudag og laugardag ef til vill? Ég vona að virðulegi forseti hafi tekið eftir spurningu minni. Ég spyr: Er einhver hugmynd um að hafa þingfund á föstudag og ef til vill á laugardag? Má kannski gera ráð fyrir sunnudegi, að þá verði þing? (Gripið fram í.) Það hlýtur að vera eðlileg krafa frá okkur þingmönnum til ykkar að það sé gefið út hvernig þessu verði háttað. Og verður fundað hér á morgun með fyrirspurnum eins og komið hefur fram og fundur á fimmtudag og síðan komum við aftur saman, ekki á mánudag því að þá er annar í hvítasunnu heldur á þriðjudag? Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja eftir þessu.

Svo blandast auðvitað inn í þetta eins og hér hefur gerst í umræðunni þau hrossakaup sem gerð voru í gær hvað þetta varðar. Auðvitað er það svoleiðis að þegar varahjól Sjálfstæðisflokksins var dregið fram, þ.e. Framsóknarflokkurinn hér í Reykjavík, og sett undir virtist hafa liðkað fyrir ýmsu að Framsóknarflokkurinn var til í að Ríkisútvarpið yrði sett á dagskrá og rætt áfram og í staðinn fékk Framsóknarflokkurinn eitthvert bix í nýsköpunarfrumvarpinu þannig að (Forseti hringir.) það virðist eiga að taka þetta svona saman. Það eru enn þá, virðulegi forseti, þessi hrossakaup (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.