132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins.

681. mál
[13:34]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hleyp í skarðið fyrir hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur sem er að sinna skyldustörfum erlendis og ber svohljóðandi fyrirspurn til forsætisráðherra:

1. Hvað líður setningu reglna um leyfi starfsmanna frá störfum í ríkisþjónustu þegar þeir taka tímabundið við öðrum störfum, svo sem hjá alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að eða kjörnum trúnaðarstörfum, samanber þingsályktun um það mál sem samþykkt var 7. maí 1998?

2. Hefur verið kannað hvaða reglur eru í gildi á annars staðar á Norðurlöndunum um ólaunuð leyfi frá störfum?

Ástæða þessarar fyrirspurnar er eins og kemur reyndar fram í henni sjálfri að samþykkt var þingsályktun í maí 1998 þar sem ríkisstjórninni var falið að láta semja slíkar reglur og flutningsmaður þingsályktunartillögunnar var Rannveig Guðmundsdóttir en auk hennar voru ýmsir þingmenn meðflutningsmenn og tveir þeirra eru nú ráðherrar, þ.e. hæstv. umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, og hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir. Það eru sem sagt liðin átta ár síðan þingsályktunin var samþykkt. Gengið hefur verið eftir því nokkrum sinnum hvort þetta hafi verið gert og eitthvað lítið orðið um svör. Því spyr hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir eina ferðina enn um þetta mál.

Það er mjög mikilvægt, virðulegur forseti, að í gildi séu skýrar reglur um ráðningar og réttarstöðu starfsmanna í stjórnsýslunni þannig að það sé ekki geðþótti eða pólitísk velvild eða óvild sem ráði því, bæði hvernig staðið er að ráðningum starfsmanna eða hvernig staðið er að leyfisveitingum eða öðrum slíkum hlutum. Nú hefur Rannveig Guðmundsdóttir látið sig þessi mál miklu varða og m.a. flutt um það þingsályktunartillögu, ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar, að skilið verði á milli embættislegra og pólitískra ráðninga. Á undanförnum árum eru því miður mörg dæmi um að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för í starfsmannamálum ríkisins. Þar nægir að nefna skipan hæstaréttardómara, starfslok framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, ráðningu fréttastjóra Ríkisútvarpsins sem reyndar gekk til baka, ráðningu ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu og málsmeðferð í máli ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneytinu, sem einmitt fékk leyfi frá störfum til að sinna störfum fyrir íslenska ríkið á alþjóðavettvangi en kom síðan til baka og fann annan á fleti fyrir í ráðuneyti sínu.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, hefur rannsakað pólitískar stöðuveitingar á Íslandi og hjá honum kemur fram að talsvert sé um slíkt. Til að koma í veg fyrir það þurfi að vera skýrar málsmeðferðarreglur (Forseti hringir.) og skýr aðgreining í pólitískum og embættislegum ráðningum. (Forseti hringir.)