132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins.

681. mál
[13:42]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svör forsætisráðherra við fyrirspurninni sem voru einfaldlega á þá leið að fjármálaráðuneytið hefði gert mistök í færslum sínum og bókað þetta erindi sem afgreitt, þ.e. að ráðuneytið hefði ekkert gert í málinu í þau átta ár sem liðin eru frá því að þingsályktunartillagan var samþykkt. Ég verð að játa það, virðulegur forseti, að mér finnst þetta bara beinlínis pínlegt, að fjármálaráðuneytið skuli fá erindi fyrir átta árum, bóka það með röngum hætti og ekkert hafi gerst í málinu. Ég tek þessi svör ekki alveg góð og gild vegna þess að ég veit að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur gengið eftir því hvað liði vinnu við þetta mál. Hún hefur svo sem ekki fengið mikil svör en að allan þann tíma skuli menn ekki hafa áttað sig á þessum mistökum, í þessi átta ár.

Þar fyrir utan finnst mér það bara beinlínis pínlegt að stjórnsýsla ríkisins skuli vera með þeim hætti að mönnum þar skuli ekki hafa dottið það í hug, allan þennan tíma, að eigin frumkvæði og fyrir eigið hyggjuvit að það þyrfti að setja slíkar reglur um það með hvaða hætti skyldi farið með mál þeirra starfsmanna ríkisins sem sækja á erlendan vettvang og sinna þar störfum fyrir ríkið, ekki síst vegna þess að við höfum verið allan þennan tíma með mál eins einstaklings hér til meðferðar í kerfinu sem fór einmitt utan til að sinna slíkum störfum, kom heim og fékk ekki starfið sitt aftur sem hann taldi þó víst þegar hann tók að sér að fara fyrir íslenska ríkið til útlanda og sinna þar störfum. Hann fékk ekki starfið sitt aftur og hann hefur velkst um í kerfinu allan þennan tíma sem þetta mál hefur verið í gangi i í stjórnsýslu ríkisins og velkst þar án þess að nokkuð væri með það gert.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst þetta pínlegt, bæði vegna þess að átta ár eru síðan þetta var samþykkt og eins vegna hins, að stjórnsýslan (Forseti hringir.) skuli ekki hafa fundið upp á því sjálf að setja slíkar reglur.