132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

reiknilíkan framhaldsskóla.

471. mál
[13:52]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég leyfi mér að fullyrða að ég tel það eina jákvæðustu breytingu í skólakerfinu þegar upp var tekið reiknilíkan en hins vegar til þess að reiknilíkan virki þarf það að sjálfsögðu að vera í stöðugri endurskoðun, það þarf að hafa sveigjanleika og um það þarf að vera sátt á milli hins opinbera og skólasamfélagsins. Miðað við hvernig fjárveitingar til skóla voru áður en reiknilíkanið var tekið upp má segja að þetta séu miklar framfarir.

Hins vegar þarf reiknilíkan að hafa þann sveigjanleika að þegar forsendur breytast í einstökum skólum þarf að vera hægt að bregðast við, t.d. ef nemendafjöldi eykst umfram það sem áætlað hafði verið þarf að vera hægt að bregðast við. Af þessu tilefni leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort framhaldsskólar muni t.d. geta innritað alla þá nemendur sem sækja um, jafnvel þó að umfram sé áætlun.