132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

reiknilíkan framhaldsskóla.

471. mál
[13:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurrós Þorgrímsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir greinargóð svör. Það er rétt að það er mjög mikilvægt að hafa reiknilíkan, við vitum það, fyrir kennslu og rekstrarkostnaði framhaldsskólanna. Þær breytingar sem komu til framkvæmda núna 2003 með þessu nýja reiknilíkani sýna að tillit hefur verið tekið til verkmenntaskólanna. Það er náttúrlega jákvætt að nú er heimilt að hafa 12 nemendur í stað 25 og að jafnframt gerir reiknilíkanið betur grein fyrir húsnæði og þrifum og öðru en ég held að reiknilíkanið þurfi að vera í stöðugri endurskoðun, eins og ráðherra kom inn á. Mér skilst nú að svo sé. Það þarf líka að gæta þess að það eru e.t.v. 10 nemendur eða færri sem sækja inn á ákveðnar verknámsbrautir, og það þarf að vera vel vakandi yfir því að þessir nemendur fái inni í skólunum svo hægt sé að kenna þessa áfanga.

Ég þakka enn og aftur ráðherra fyrir hennar greinargóðu svör og ég heyri að hún er öll af vilja gerð til þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að koma þessu áfram.