132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

reiknilíkan framhaldsskóla.

471. mál
[13:55]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt sem hefur komið fram, og það er gott að finna þennan tón sem er hér hjá hv. þingmönnum, að það er mikilvægt að reiknilíkanið sé sveigjanlegt og verði áfram sveigjanlegt. Við sjáum það m.a. á svari mínu að fram til þessa hefur það verið það. Reiknilíkanið er nú þegar í endurskoðun og þar tökum við m.a. tillit til þeirra ábendinga og þess skólafólks sem nú er starfandi í skólum landsins.

Það er sem betur fer enginn að tala um að leggja niður eða taka af reiknilíkanið. Það er enginn að ræða það, heldur það hvernig við getum gengið samhent í það að fara í ákveðnar leiðréttingar sem þarf að gera. Í meginatriðum stendur það þó fyrir sínu. Húsnæðið hefur verið leiðrétt að hluta, við sjáum tilfærslu á fjármunum — sem allir hafa verið að tala um — yfir til verknámsskólanna, m.a. í ljósi þess kostnaðarsama náms sem þar er starfrækt.

Ég vil sérstaklega taka fram varðandi rekstur skólanna almennt séð — þó er það ekki alveg undantekningarlaust — að rekstrarstaða framhaldsskólanna er góð. Ég dreg m.a. þá ályktun að reiknilíkanið hafi gert rekstrarstöðu skólanna betri en hún ella hefði verið og það er auðveldara að reka framhaldsskólana. Hitt er síðan annað mál hvað varðar innritunina að að sjálfsögðu munum við gera allt til þess að koma öllum nemum inn í framhaldsskólakerfið. Þar þurfa auðvitað þingmenn að leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að fjárlagagerðin standi undir þeim kröfum sem framhaldsskólakerfið gerir ráð fyrir og gerir til okkar sem stöndum að fjárlagagerðinni.