132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

samræmd lokapróf í grunnskóla.

621. mál
[14:06]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég fagna fyrirspurn frá hv. þingmanni og ekki síður svörum hæstv. ráðherra. Ég tel það merkilegt að nú skuli eiga sér stað heildarendurskoðun á grunnskólalögunum og ekki tel ég síður mikilvæga þá viðurkenningu á nauðsyn þess að yfirfara hlutverk, gildi og framkvæmd samræmdra prófa eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra.

Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda taka samræmd próf mikinn tíma og orku og eru að mörgu leyti stýrandi um skólastarf. Þegar tekin eru upp samræmd miðstýrð próf í tilteknum greinum eru í rauninni þær greinar settar skörinni ofar en aðrar greinar. Þar með er í rauninni verið að ýta þeim greinum sem ekki eru prófaðar, eins og verklegum greinum, listgreinum og öðrum mannlegum þáttum, til hliðar og er mikilvægt að hafa það í huga.

Hins vegar er nauðsynlegt að mæla með einhverjum hætti stöðu skóla og einstakra nemenda gagnvart öðrum en það má gera með öðrum hætti en að (Forseti hringir.) tengja mælinguna brautskráningu og umfram allt að treysta skólunum sjálfum fyrir að meta slíkt.