132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

samræmd lokapróf í grunnskóla.

621. mál
[14:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að heyra þau viðhorf sem uppi eru hjá þingmönnum ýmissa flokka. Það eru miklar efasemdir um gildi og fyrirkomulag á samræmdum prófum og greinilega vilji til að draga mjög úr notkun þeirra og þá til að auka fjölbreytni og sjálfstæði skóla í menntakerfinu. Ég fagna því.

Það var ánægjulegt að heyra viðhorfin bæði hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni og þingmönnum Vinstri grænna. Eins er það ágætt að hafin sé heildarendurskoðun á grunnskólalögunum. Megi sú endurskoðun verða til þess að draga úr samræmdum prófum eða endurskoða mjög rækilega fyrirkomulag þeirra. Það blasir við að sú mikla áhersla sem lögð er á samræmd lokapróf í grunnskólum bitnar mjög harkalega á verklegum greinum og greinum sem leggja upp úr þekkingu og færni í mannlegum samskiptum hvers konar. Það er miður. Sú þróun hefur verið neikvæð að mínu mati á síðustu missirum að þeim greinum hefur fjölgað sem prófað er í samræmt. Ég held að frekar eigi að fækka þeim.

Hvort það sé vænlegt til árangurs að taka inn og bæta við í flóru samræmdra prófa samræmdum mælingum í verklegum greinum veit ég ekki. Það getur vel verið. Það verðum við að skoða. Ég vil ítreka að ég er sannfærður um að það eru til miklu betri leiðir til að mæla árangur og vellíðan í framhaldsskólunum en það úrelta fyrirkomulag sem við búum við í dag í formi samræmdra lokaprófa í grunnskóla. Ég er algjörlega sannfærður um að róttæk endurskoðun á þeim sem mundi leiða til þess að við drægjum mjög úr notkun þeirra eða legðum þau af í núverandi mynd yrði mjög farsælt skref í íslensku skólakerfi.

Ég vona að túlka megi hæstv. ráðherra þannig að hún sé ekki alveg afhuga því og það komi til greina komist þessi endurskoðunarnefnd að þeirri niðurstöðu.