132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

námsbækur.

764. mál
[14:37]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns þá hefur ekki verið gerð heildstæð úttekt á gæðum námsbóka í íslenskum skólum. Hins vegar hefur verið gerð úttekt á notkun kennsluefnis í grunnskólum í tengslum við endurskoðun á lögum um Námsgagnastofnun sem ég mun koma að hér síðar.

Námsgagnastofnun sér um útgáfu kennslubóka og margvíslegs kennsluefnis fyrir grunnskólastigið, bæði á prentuðu formi og á netinu. Stofnunin starfar síðan eftir verklagsreglum sem eiga að tryggja gæði útgefins efnis. Haft er samstarf við kennara og skólastjórnendur um val og gerð námsefnis svo að það svari sem best kröfum skólastarfsins.

Námsbækur í framhaldsskólum verða að mestu til á frjálsum markaði. Algengast er að námsefnið sé samið af kennurum á framhaldsskólastigi eða öðrum sérfræðingum í viðkomandi kennslugreinum. Oftast sjá bókaforlög um útgáfu efnisins og kosta vinnu við samningu þess eða þýðingu. Starfsmenntaskólar hafa með sér samtök um útgáfu námsefnis fyrir starfsmenntunina en þar er oft um mjög fámenna áfanga að ræða og því nokkuð lítinn markað.

Gæði námsefnis á framhaldsskólastigi eru einkum tryggð með því að efnið er samið af sérfræðingum í hverri grein. Kennarar sem eru sérfræðingar á sínu sviði velja það efni sem þeir telja best fallið til notkunar í kennslunni. Þá er leitað álits fagfélaga kennara við úthlutun styrkja til námsefnisgerðar, en þetta atriði tel ég skipta miklu máli í framhaldsskólum, sem menntamálaráðuneytið síðan veitir. Þannig er verið að tryggja faglega aðkomu að námsefnisgerð.

Nú stendur til að ráðast í átak til að bæta námsbókakost í grunn- og framhaldsskólum. Rétt er að geta þess að í júní 2005 skipaði ég starfshóp sem falið var að endurskoða lögin um Námsgagnastofnun. Nefndinni var gert að hafa hliðsjón af 33. gr. laga um grunnskóla. Í þeirri grein er m.a. kveðið á um að kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skuli veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu og jafnframt að Námsgagnastofnun skuli tryggja að ætíð sé völ á námsbókum og öðrum námsgögnum sem standast kröfur gildandi laga og aðalnámskrár o.fl.

Nefndin hefur haldið átta fundi og fól m.a. fyrirtækinu Parex að gera könnun á námsgagnanotkun hérlendis. Stefnt er að því að nefndin ljúki störfum innan skamms og mun niðurstaða vinnu hennar verða kynnt ásamt niðurstöðum könnunarinnar væntanlega á haustmánuðum.

Námsefnisgerð á framhaldsskólastigi er styrkt af ráðuneytinu með því að höfundar og útgefendur kennsluefnis geta sótt um styrki til útgáfu kennslubóka. Umsóknir eru sendar til umsagnar hjá fagfélögum kennara áður en styrkirnir eru veittir, eins og ég gat um áðan, til að tryggja að fyrirhugað efni komi að sem bestum notum. Á þessu ári var þannig varið 31,2 millj. kr. til að styrkja útgáfu nýs námsefnis í framhaldsskólum. En jafnframt styrkir ráðuneytið nú í sérstöku átaki útgáfu rafræns námsefnis um 50 millj. kr. á þessu ári.

Ráðuneytið heldur úti vefsvæði sem heitir menntagátt.is. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um nám og kennslu. Á Menntagátt eru m.a. upplýsingar um rafrænt kennsluefni sem stendur til boða í ýmsum greinum svo og bækur og greinar sem nýtast í námi. Flokkun námsefnis á Menntagátt er í samræmi við markmið aðalnámskrár til hægðarauka fyrir kennara, nemendur og foreldra. Námsgagnastofnun heldur einnig úti vef með margvíslegu efni fyrir grunnskóla.

Síðan varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns. Ég tel að bókakostur í skólum landsins sé nokkuð vel við unandi í meginatriðum. Í því áliti styðst ég við upplýsingar sérfróðra manna um skólamál okkar.

Ég geri mér þó, frú forseti, fyllilega grein fyrir að það er viðvarandi verkefni að bæta námsefni og auka fjölbreytni þess til hagsbóta fyrir skólastarfið, bæði í grunn- og framhaldsskólum. Eins og fram kom hér á undan fer nú fram þessi endurskoðun á veigamiklum þáttum í útgáfu kennsluefnis á grunnskólastigi og full ástæða er til að gefa sérstakan gaum að stöðu kennsluefnis á framhaldsskólastigi í framhaldi af því.

En það er einnig rétt að hafa í huga að skólastarf í dag, frú forseti, þarfnast ýmissa tegunda námsgagna sem eru í öðru formi en nákvæmlega bókaformi og á starfshópurinn einnig að miða vinnu sína við þær kröfur skólastarfsins.