132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

námsbækur.

764. mál
[14:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það stendur eftir að verulegur skortur er á fjármagni til námsefnisgerðar. Námsefnisskorturinn bitnar helst á áföngum námskrárinnar sem eru á kjör- og valsviði aðalnámskrár framhaldsskólanna. Til dæmis um það er ástandið það dapurlegt í mörgum kjörsviðs- og valáföngum í starfsnáminu að í sumum greinum hafa hvorki litið dagsins ljós námskrár í samræmi við núgildandi aðalnámskrár framhaldsskóla frá árinu 1999 né nýtt kennsluefni í samræmi við hana. Þó er hátt í áratugur síðan hún var samþykkt.

Árið 2005 úthlutaði menntamálaráðuneytið 19,3 millj. kr. til námsefnisgerðar á framhaldsskólastigi um leið og fjárbeiðnir voru um 77 millj. kr. Það er staðreynd að námsefnisgerð á framhaldsskólastiginu er svo ábótavant að það stendur námi mjög fyrir þrifum að mati skólamanna og þeirra sem hafa kafað ofan í það. Það getur ekki flokkast undir annað en hreina vanrækslu af hálfu hins opinbera hvernig staðið er að námsbókagerð á framhaldsskólastiginu.

Námsefnissjóðurinn hefur einfaldlega ekki nægilega peninga til að verða við þörfum um efnisskrif og því fá miklu færri styrk til að sækja um. Hvað sem hinum frjálsa markaði líður þá verður að vera til slíkur sjóður sem veitir styrki til námsefnisgerðar. Það er verið að svelta þetta mjög verulega og því er ástandið jafnbágborið og raun er. Það er með nokkrum ólíkindum að ekki skuli vera til staðar gæðaeftirlit af hálfu hins opinbera, hvernig að þessum málum er staðið. Hæstv. ráðherra hlýtur að ætla að bæta úr þessari vanrækslu í námsefnisgerð með einhverjum hressilegum hætti.