132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

námsbækur.

764. mál
[14:45]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er gott að finna þann samhljóm sem er meðal okkar sem tilheyrum þingheimi, að við viljum öll góð námsgögn og gæði í námsgagnagerð. Að því er verið að vinna. Í fyrsta lagi vil ég nefna aftur það sem ég gat um áðan, þá nefnd sem er að fara yfir námsgagnagerð í landinu. Ég bind auðvitað ákveðnar vonir við að þar komi fram tillögur sem styrki og efli námsgagnagerð, bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Við skulum því bíða og sjá hvaða tillögur líta dagsins ljós. Síðan er ávallt verið að reyna að tryggja faglega aðkomu að gerð alls námsefnis. Það er verið að leita til kennara og leita umsagnar fagfélaga. Við hljótum að geta treyst því að það sem þaðan kemur sé þess eðlis að við getum miðlað því áfram sem námsgögnum, nema menn beri brigður á það, sem ég tel ekki vera.

Varðandi það hvort óháð mat hafi átt sér stað á gæðum námsefnis þá vil ég endurtaka það sem ég gat um áðan að í tengslum við starf nefndarinnar var m.a. fyrirtækinu Parex falið að gera könnun á námsgagnanotkun hérlendis og ég vonast til að hún muni nýtast varðandi frekari stefnumótun á vegum nefndarinnar.

Ég vil líka hressa upp á gamlar tölur hv. þm. og fyrirspyrjanda, Björgvins G. Sigurðssonar. Þetta hefur hlutfallslega aukist verulega, upp í tæplega 32 millj., auk hins nýja námsefnis sem ekki má gleyma, en ráðuneytið hefur m.a. staðið í sérstöku átaki varðandi útgáfu rafræns námsefnis upp á 50 millj. kr. á þessu ári. Það er rétt að draga það fram en sleppa ekki jafnmikilvægum tölum og þessum sem stuðla að því að námsefnið verði fjölbreytt og vonandi innihaldsríkt og fullt af gæðum.