132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

skoðanakannanir.

769. mál
[14:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um skoðanakannanir. Það er kannski vel til fundið nú þegar aðeins örfáir dagar eru liðnir frá sveitarstjórnarkosningum þar sem skoðanakannanir spiluðu einmitt mjög stóra rullu. Það má í raun og veru segja sem svo að skoðanakannanir hafi síðustu dagana fyrir kosningar verið nánast eina fréttaefnið af fyrirhuguðum kosningum, þ.e. hver var niðurstaðan úr skoðanakönnunum frá degi til dags, en minna farið fyrir því að ræða það sem menn eiga náttúrlega að ræða um sem eru málefnin, málefnaáherslur flokkanna og pólitíkin og þeir valkostir sem kjósendur standa frammi fyrir á kjördegi.

Ástæða þess að ég lagði fram þessa fyrirspurn, það eru líklega liðnir um tveir mánuðir síðan ég skilaði henni inn, er sú að menn fóru mjög snemma af stað með skoðanakannanir fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar, löngu áður en t.d. framboðsfrestur rann út og oft löngu áður en flokkar og framboð höfðu skilað inn listum sínum. Margir hafa bent á að skoðanakannanir geti á margan hátt verið skoðanamyndandi. Þær geti sett kjósendur í ákveðinn farveg og ef skoðanakannanir gefi ranga mynd af hinni raunverulegu pólitísku stöðu geti það bæði ruglað kjósendur í ríminu en líka okkur stjórnmálamenn. Það er umræða sem að sjálfsögðu hlýtur að bíða annars tækifæris en mig langar að lesa upp þær spurningar sem ég legg fyrir hæstv. ráðherra:

1. Telur ráðherra að það sé eðlilegt og samrýmast kröfum um fagleg vinnubrögð óháðra vísindastofnana að stofnun á vegum Háskóla Íslands standi fyrir gerð skoðanakannana um kjör til sveitarstjórna í aðdraganda kosninga áður en lögbundinn frestur til að skila inn framboðum hefur runnið út?

2. Telur ráðherra það eðlilegt að utanaðkomandi fyrirtæki eða einkaaðilar geti keypt stofnun á vegum Háskóla Íslands til verka af þessu tagi?

3. Telur ráðherra eðlilegt að háskólastofnanir keppi við einkafyrirtæki um framkvæmd slíkra kannana?

Hér er ég að tala um Háskóla Íslands, virðulegi forseti, að vísa til Háskóla Íslands. Ástæðan fyrir því er að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands tók að sér það verkefni að gera svona skoðanakannanir í sveitarfélögum vítt og breitt um landið. Ég held að það verkefni hafi hafist strax í byrjun apríl. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands er náttúrlega stofnun á vegum æðstu menntastofnunar landsins. Ég leyfi mér að gera mjög alvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð og spyr hvort það séu hreinlega fagleg vinnubrögð að slík vísindastofnun geri skoðanakannanir af þessu tagi löngu áður en frestur til að skila inn framboðum er runninn út.