132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

skoðanakannanir.

769. mál
[14:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég tel rétt varðandi 1. lið fyrirspurnarinnar, þ.e. hvort ég telji eðlilegt og samrýmast kröfum um fagleg vinnubrögð óháðra vísindastofnana á vegum Háskóla Íslands að þær standi fyrir gerð skoðanakannana eins og hv. þingmaður og fyrirspyrjandi kom inn á, að undirstrika það, og það er kannski mikilvægasti þátturinn í svari mínu, að Háskóli Íslands er sjálfstæð ríkisstofnun sem tekur sjálf ákvarðanir um þau verkefni sem þar eru unnin og stjórnvöld hafa að sjálfsögðu aldrei lagt hömlur á sjálfstæði Háskóla Íslands eða akademískt frelsi starfsmanna háskólans. Starfsmennirnir hafa rannsóknarfrelsi og þeim er frjálst að setja niðurstöður rannsókna sinna fram með þeim hætti sem þeir kjósa.

Félagsvísindastofnun heyrir stjórnskipulega undir félagsvísindadeild Háskóla Íslands og starfsmenn stofnunarinnar sinna jafnframt kennslu við deildina. Ég tel og undirstrika það að Háskóli Íslands stundar fagleg vinnubrögð. Ég er ekki sammála því sem kom fram í lok fyrirspurnar hv. þingmanns áðan, ég tel að Háskóli Íslands stundi fagleg vinnubrögð en tel í ljósi sjálfstæðis stofnunarinnar ekki við hæfi að ég gefi hér einstökum verkefnum eða rannsóknum sem þar eru unnar einkunn.

Varðandi 2. lið fyrirspurnarinnar, þ.e. hvort ég telji eðlilegt að utanaðkomandi fyrirtæki eða einkaaðilar geti keypt stofnun á vegum Háskóla Íslands til verka af þessu tagi. Það má segja að svar mitt við þessari spurningu sé sama eðlis og varðandi fyrstu spurninguna, þ.e. að ég vísa til sjálfstæðis Háskóla Íslands og hann metur þetta. Ég sé ekki, ef farið er eftir reglum Háskóla Íslands, að það stangist eitthvað á að skoðanakannanir séu keyptar af Félagsvísindastofnun.

Varðandi 3. liðinn: „Telur ráðherra eðlilegt að háskólastofnanir keppi við einkafyrirtæki um framkvæmd slíkra kannana?“ Það er afar mikilvægt varðandi Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að þess sé gætt þegar um útselda þjónustu er að ræða, sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, að sú starfsemi verði fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Eftir því sem ég best veit fer Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að sjálfsögðu eftir þessu.