132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

framhaldsskóli í Suðvesturkjördæmi.

775. mál
[15:04]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt að undirstrika að á hverjum tíma liggja fyrir hjá ráðuneytinu ýmsar hugmyndir um nýja framhaldsskóla. Annars vegar koma til afar eðlilegar óskir heimamanna þar sem byggð vex og íbúum fjölgar en einnig er vaxandi áhersla á þörf og rétt til nálægðar framhaldsskóla og síðan koma ýmis byggðasjónarmið þar inn í þannig að sem allra víðast verði hægt að stunda framhaldsnám í heimabyggð. Við erum að sjá það gefast afar farsællega á norðanverðu Snæfellsnesi. Hins vegar hefur ráðuneytið frumkvæði að því að skipuleggja nám, námsframboð og byggingu aðstöðu eftir eðlilegum þörfum og áherslum þjóðfélagsins í heild.

Undanfarin missiri hefur umræða aukist um nýja skóla svona nokkuð vítt og breitt um landið og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturkjördæmi sem þessi fyrirspurn meðal annars snýst um.

Í haust lét ég gera sérstaka athugun á væntanlegri uppbyggingu nýrra íbúðahverfa á þessu svæði sem við erum stödd á. Nú á þessu ári hefur starfað hópur eða nefnd á vegum ráðuneytisins til að setja fram heildstætt yfirlit yfir þá kosti sem fyrir eru um stofnun nýrra framhaldsskóla og stækkun þeirra sem fyrir eru þannig að við getum metið landið í heild. Við þekkjum umræðuna um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Ýmsar aðrar hugmyndir eru uppi. Hópurinn er að meta þetta út frá annars vegar íbúafjölgun og byggðinni, þ.e. hvernig hún er að vaxa. Síðan verður að sjálfsögðu að taka tillit til ákveðinna nálægðarsjónarmiða, byggðasjónarmiða og annars.

Kemur þá að síðari spurningunni: Hefur stofnun nýrra framhaldsskóla í Mosfellsbæ, Kópavogi og Hafnarfirði verið tímasett?

Rétt er að taka fram að nú þegar eru hafnar framkvæmdir við stækkun Flensborgarskólans í Hafnarfirði. Sú stækkun mun koma að fullu til framkvæmda og skólinn taka hið nýja húsnæði til notkunar í haust. Tillögur um stækkun Fjölbrautaskólans í Garðabæ liggja fyrir, þ.e. um 1.000 fermetra stækkun sem verið er að vinna að og skipuleggja. Forsendur stækkunar Iðnskólans í Hafnarfirði eru til skoðunar og hefur skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði kynnt mér þær tillögur. Í gildi er áætlun í kjölfar samkomulags ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um stækkun og endurbætur á fimm framhaldsskólum. Fyrst má nefna MH. Þar erum við þegar byrjuð. Svo eru það Fjölbraut í Ármúla og Iðnskólinn í Reykjavík. Þar er þegar byrjað að hanna nýja hæð sem bæta á við Iðnskólann í Reykjavík. Loks eru það MR og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Vert og rétt er að geta þess að MR hefur núna á fjárlögum 50 milljónir og hafði á síðastliðnu ári líka og mun hafa það á næsta ári varðandi uppbyggingu Casa Nova eða endurbætur á Casa Nova og í kjölfar þess er ljóst að hefjast mun framtíðaruppbygging og endurbætur á húsnæði Menntaskólans í Reykjavík. Það er nokkuð sem liggur líka fyrir. Um það eigum við eftir að semja að sjálfsögðu við borgina. En þetta hafa menn rætt sín á milli og hefur legið fyrir í nokkurn tíma.

Sérhver ákvörðun hefur áhrif á heildarmyndina — Það er vert að hafa í huga — og ekki síst ákvarðanir sem varða Breiðholtið og nágrenni á Suðvesturhorninu, ef við tölum um það. Fyrir liggur álit nefndarinnar, sem ég gat um áðan um áðan, um staðsetningu nýrra framhaldsskóla og niðurstaðan gerir nokkuð ljóst hvar skórinn kreppir á þessu svæði. Rétt er að geta þess að hún telur að í ljósi þróunar við utanverðan Eyjafjörð, jarðganga og annars, t.d. íbúaþróunar, sé rétt að hefja uppbyggingu á framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð í samræmi við óskir heimamanna. En þetta eru tillögur. Það er síðan annað að tryggja fjármagnið. Þetta er stefnumótun þannig að menn átti sig á þörfinni og hvar skórinn kreppir. Það er mikilvægt að menn hafi það í huga.

Vaxtarsvæði byggðarinnar við Faxaflóa er á austurjaðrinum, allt frá Kjalarnesi um Mosfellsbæ, Úlfarsfellssvæði, Grafarholtið, Elliðavatn, Garðabæ og til Hafnarfjarðar. Þessu átta þingmenn Suðvesturkjördæmis sig alla vega á. Við sjáum að flestir framhaldsskólarnir eru á þessu svæði vestan megin Elliðaáa. Tveir skólar, FB og Borgarholtsskóli, eru núna austan megin. En þenslan í íbúafjölda er mestmegnis í Mosfellsbænum, á Norðlingaholtinu, við Vatnsenda og síðan í Garðabæ þegar til lengri tíma er litið. Við erum að sjá líka gríðarlega uppbyggingu á Vallasvæðinu í Hafnarfirði. Þar er því þörfin að mati nefndarinnar. Nefndin segir að í ljósi íbúaþróunar og byggðar í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi, við Úlfarsfell og uppbyggingar þar, og hugsanlega Geldinganesi með tilliti til nýs meiri hluta í Reykjavíkurborg, sé rétt að þar rísi skóli. Þeir mæla sem sagt með því að framhaldsskóli rísi í Mosfellsbæ.

Nefndin fór einnig yfir Reykjanes. Þar var stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja tekin í notkun á síðasta ári. Þar er líka mikil íbúafjölgun og þrýstingur á að taka næstu skref á þeim slóðum. Þeir mæla með að fylgjast grannt með íbúaþróun á Suðurnesjum næstu missirin og taka ákvörðun í ljósi þróunar.

Ég tel (Forseti hringir.) mikilvægt, frú forseti, að við kortleggjum svæðin og skoðum hvar þörfin sé (Forseti hringir.) til næstu ára þannig að við vitum hvernig við þurfum að taka tillit til þess bæði varðandi fjárlagagerð og stefnumótun til lengri tíma um uppbyggingu framhaldsskóla.