132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

hrefnuveiði.

772. mál
[15:32]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hve margar hrefnur ráðherra telji að veiða þurfi til að byggja upp þorskstofninn. Við þessari spurningu er í sjálfu sér ekki hægt að veita neitt óyggjandi svar miðað við núverandi þekkingu okkar á vistfræði hrefnu hér við land og samspili hennar við þorskstofninn. Þótt vísbendingar séu um að hrefna sé mikilvægur afræningi á þorski er ljóst að margt fleira hefur áhrif á vöxt og viðgang þorskstofnsins og því er e.t.v. aldrei hægt að svara þessari spurningu af mikilli nákvæmni. Þess er þó vænst að yfirstandandi rannsóknir á fæðuvistkerfi hrefnunnar geri okkur kleift að nálgast svar við spurningunni um vistfræðilegt samspil hrefnu og þorsks hér við land betur en nú er unnt.

Samkvæmt síðustu talningu sem fór fram árið 2001 voru 43.600 hrefnur á landgrunninu við Ísland. Einfaldur samanburður á gögnum úr þeim fjórum flugtalningum sem fóru fram á tímabilinu 1986–2001 bendir til að stofninn hafi verið stöðugri eða stækkað lítillega á þessu tímabili. Úttektir vísindanefnda Alþjóðahvalveiðiráðsins og Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins benda til þess að hrefnustofninn hér við land sé nálægt þeirri stærð sem hann var áður en hrefnuveiðar hófust hér við land árið 1914. Samkvæmt nýjustu úttekt vísindanefndar NAMMCO munu árlegar veiðar á 200 hrefnum færa stofninn niður í 83–94% af þessari stærð á næstu 20 árum og árlegar veiðar á 400 hrefnum færa stofninn niður í 69–87% á sama tímabili. Veiðar á 50 dýrum á ári munu ekki leiða til marktækra breytinga á stofninum samkvæmt úttektinni. Á grundvelli þessara úttekta hefur Hafrannsóknastofnun, eins og menn vita, á undanförnum árum lagt til að veiðum verði haldið innan við 400 dýr og jafnframt að þeim yrði háttað í samræmi við dreifingu hrefnu á íslenska landgrunninu en vegna átthagatryggðar einstaklinga má búast við að áhrif veiðanna verði að öðrum kosti meiri á afmörkuðum svæðum.

Það er almennt viðurkennt að kjörnýtingarstærð hvalastofna liggi á bilinu 60–72% af upprunalegri stærð og miðast flest veiðistjórnunarkerfi við að halda stofnunum í þeirri stærð. Samkvæmt ofangreindri frumathugun á fjölstofnalíkani getur skipt verulegu máli fyrir langtímaafrakstur þorskstofnsins hvort hvalastofnarnir séu í hámarksstærð eða 70% af þeirri stærð. Sú ályktun byggði m.a. á ótryggum forsendum um hlutdeild þorsks í fæðu hrefnu hér við land. Frumniðurstöður úr fyrri helmingi rannsókna benda til að þær forsendur standist þegar litið er til landgrunnssvæðisins í heild. Hins vegar benda þær líka til verulegs breytileika eftir hafsvæðum sem nauðsynlegt er að taka tillit til við þróun fjölstofnalíkans. Þannig virðist sandsíli vera langmikilvægasta fæðutegundin út af suður- og suðvesturströnd landsins þar sem um eða yfir helmingur hrefnustofnsins heldur sig á sumrin. Þorskneysla hrefnunnar virðist hins vegar mest við Vestfirði og Norðurland þar sem þéttleiki hrefnu er minni. Hugsanlegt er því að tiltölulega takmarkaðar veiðar á þeim svæðum geti haft umtalsverð áhrif á heildarþorskneysluna. Þessi áhrif er þó ekki unnt að meta fyrr en rannsóknaverkefnum lýkur.

Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér ekki neitt sem gefur hv. þingmanni tilefni til að ætla það af svari mínu á Alþingi fyrir nokkrum vikum sem hann vitnaði til að ég telji að eingöngu eigi að horfa til þorskneyslu eða fæðu hrefnunnar hér við land. Ég var einfaldlega að vekja athygli á því að fjölgun hrefnunnar og sú staðreynd að við erum ekki að veiða hana hefur að sjálfsögðu áhrif á uppbyggingu þorskstofnsins. Þess vegna ítreka ég að ég er þeirrar skoðunar og byggi hana m.a. á gögnum sem liggja fyrir — og ég trúi því ekki að hv. þingmaður sé mér ósammála um það — að hrefna sem ekki er nýtt og þessi mikli vöxtur hrefnustofnsins hafi áhrif á stöðu þorskstofnsins. Þessar tölur sem ég fór hér með og hafði eftir er auðvitað klár vísbending um að hægt er að hafa áhrif á stöðu þorskstofnsins með því að stunda skynsamlegar hrefnuveiðar hér við land. Og það er auðvitað ein ástæðan fyrir því að við erum yfir höfuð að ræða þessi mál. Við teljum nauðsynlegt og eðlilegt að nýta hrefnustofninn eins og aðra nytjastofna, m.a. til þess að halda ákveðnu jafnvægi í lífríkinu alveg eins og hv. þingmaður var að segja. Það er auðvitað þannig að ein tegundin étur aðra og stærri þorskur étur hinn smærri. Þetta er vel þekkt. Með nákvæmlega sama hætti er augljóst mál að óheft stækkun hrefnustofnsins, sú staðreynd að við nýtum hann ekki sem skyldi hefur að sjálfsögðu áhrif á stöðu lífríkisins. Það hefur margoft komið fram og það var eingöngu það sem ég vísaði til í ræðu minni fyrir nokkrum vikum sem hv. þingmaður vitnaði síðan til.