132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

hrefnuveiði.

772. mál
[15:37]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Umræður og hugleiðingar um áhrif sjávarspendýra á vistkerfi hafsins eru að sjálfsögðu ávallt mjög áhugaverðar. Ég held að það sé enginn vafi á því að sjávarspendýr geti haft umtalsverð áhrif. Þetta eru dýr með heitt blóð, þau brenna miklu og þurfa mikla næringu til vaxtar og viðgangs. Hins vegar finnst mér frekar hæpið að hrefnustofninn einn og sér hafi afgerandi áhrif á það hvort okkur takist að byggja upp þorskstofninn eður ei. Ég held að aðrar breytur í vistkerfi hafsins hafi miklu meiri þýðingu. Við getum nefnt nýliðun þorsks, sjálfsát og afrán eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson benti á en við megum heldur ekki gleyma skilyrðum fiskstofnsins til vaxtar, þ.e. að fiskurinn hafi nóg æti og góð skilyrði til vaxtar. Það er mín sannfæring og vissa og trú, virðulegi forseti, að ef þau atriði eru í góðu lagi þurfi í sjálfu sér ekki að hafa miklar áhyggjur af því þó að hrefnan sé til staðar í vistkerfinu umhverfis landið.