132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

hrefnuveiði.

772. mál
[15:41]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er gamalkunnugt bragð, að gera mönnum fyrst upp skoðanir og ráðast síðan á þær uppdiktuðu skoðanir og segja: Þetta er óskapleg vitleysa sem hv. þingmaður var að segja. (Gripið fram í.) Ég sagði ekki í ræðu minni um daginn að þetta skipti höfuðmáli. (Gripið fram í: Jú.) Ég sagði einfaldlega að það væri ein forsendan fyrir því að hægt væri að byggja upp þorskstofninn (Gripið fram í.) að menn sinntu því að veiða hval. Ég hélt að hv. þingmaður væri mér sammála um að það skipti auðvitað máli að við veiddum hval sem lið í því að reyna að byggja upp þorskstofninn.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að ýmsar aðrar ástæður valda því að við erum í þessari miklu lægð með þorskstofninn. Ég er ekki að gera lítið úr þeirri lægð og því að við höfum ekki náð neinum árangri í þessum efnum. Ég vakti einfaldlega athygli á einum þætti þess máls af því að ég var sérstaklega spurður um það að gefnu tilefni. Þannig var að birtar höfðu verið upplýsingar og bráðabirgðaniðurstöður rannsókna Hafrannsóknastofnunar, mjög góðar vísindalegar rannsóknir á fæðuframboði fyrir hrefnuna, og þær leiddu það m.a. í ljós að samkvæmt þessu var hlutfall þorsks í fæðu hrefnu stærra en áður hafði verið talið. Ég vakti athygli á þessu og það er auðvitað augljóst mál að þegar maður dregur ályktanir af þessu benda þær til þess að ein forsenda fyrir því að við getum byggt hér upp þorskstofn er sú að við stundum hvalveiðar. Ég sýndi fram á það að tiltölulega litlar veiðar hafa strax áhrif í þessum efnum. Það þýðir hins vegar ekki að við eigum eingöngu að horfa á þessa breytu í þessari miklu jöfnu. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ýmislegt annað skiptir máli eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði líka áðan. Sjávarspendýrin hafa mikil áhrif en það skiptir líka höfuðmáli að fiskurinn hafi nóg af æti. Við ræddum þessi mál nokkrum sinnum í vetur og ég setti fram sjónarmið mín í þessum efnum. Mér er það ljóst eins og öllum öðrum að forsenda fyrir því að við getum séð uppbyggingu þorskstofnsins er að hann hafi nóg æti og ákvarðanir mínar t.d. varðandi veiðar á loðnu í vetur tóku ekki síst mið af þessu.