132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

öryggisgæsla við erlend kaupskip.

802. mál
[18:17]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spyr hvernig öryggisgæslu sé háttað við erlend kaupskip sem liggja við Korngarð, Vogabakka, Ártúnshöfða og Vesturhöfn í Reykjavík. Eftir að hafa ráðfært mig m.a. við embættismenn er svar mitt svohljóðandi:

Öryggisgæslu við erlend kaupskip er hagað til samræmis við lög og reglur þar sem það á við að sjálfsögðu. Árið 2004 voru sett lög um siglingavernd, nr. 50/2004, til að uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt ákvæðum alþjóðasamnings um öryggi mannslífa á hafinu, SOLAS frá 1974, með áorðnum breytingum. Samkvæmt lögum um siglingavernd fer samgönguráðherra með yfirstjórn siglingaverndarmála en Siglingastofnun Íslands með framkvæmd þeirra. Hafnaryfirvöldum og útgerðum er falið undir umsjón Siglingastofnunar að gera ráðstafanir til að tryggja vernd skipa, farms og hafna í samræmi við þessar reglur.

Tilgangur laga um siglingavernd er að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnaraðstöðu fyrir hvers kyns ógn af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum. Það er ekki í samræmi við tilgang laga um siglingavernd, samanber 4. gr., að upplýsa hvernig öryggisgæslu við erlend kaupskip er háttað í íslenskum höfnum og þess vegna verður ekki hægt í þessu svari að fara nákvæmlega ofan í það skipulag, enda tel ég að það sé affarasælast að fara að þeim reglum og treysta á að það eftirlit sem Siglingastofnun er falið tryggi sem besta framkvæmd. En að sjálfsögðu er ágætt að fá ábendingar um þetta frá alþingismönnum.

Í annan stað er spurt:

„Hafa orðið breytingar á tilhögun og framkvæmd öryggisgæslu á þessum stöðum á undanförnum mánuðum og ef svo er, hvaða breytingar hafa verið gerðar?“

Það hafa orðið breytingar á tilhögun öryggisgæslu samkvæmt upplýsingum sem ég hef. Breytingarnar hafa orðið við hafnaraðstöðu Faxaflóahafna enda er framkvæmd þessarar gæslu nýjung í starfsemi og skyldum hafnanna og því er eðlilegt að hafnirnar reyni að þróa framkvæmdina í samræmi við skyldur sínar. Tilgangur þessara breytinga er sagður vera sá að gera öryggisgæsluna hagkvæmari og skilvirkari innan þeirra reglna sem nauðsynlegt er að uppfylla en Siglingastofnun hefur eftirlit með því að framkvæmd gæslunnar sé samkvæmt þeim reglum sem fylgja skal eins og fram hefur komið. Tíminn mun leiða í ljós hvort þetta gengur eftir. Eins og áður er sagt er hvorki rétt né skylt að upplýsa um fyrirkomulag öryggisgæslu í einstökum höfnum eða breytingar sem gerðar hafa verið þar á.

Ég vil að lokum segja að samgönguráðuneytið leggur auðvitað mjög ríka áherslu á að ýtrasta öryggis sé gætt og framkvæmdin sé þannig að hún tryggi það öryggi sem við gerum kröfur um enda skiptir það mjög miklu máli þar sem kröfur annarra ríkja og alþjóðlegar reglur eru mjög strangar og gerðar eru miklar kröfur um að öruggt sé að skip sem leggjast að höfnum á Íslandi hafi ekki búið við þær aðstæður að hætta geti stafað frá þegar í aðrar hafnir kemur. Þetta er svar mitt, virðulegur forseti.