132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

öryggisgæsla við erlend kaupskip.

802. mál
[18:22]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum eiginlega að ræða framkvæmd hafnaröryggiseftirlits, byggt á lögum um siglingavernd. Eins og hæstv. ráðherra sagði þá á að gæta þess að ekki fari fram neinar ólögmætar aðgerðir í höfnum landsins. Hæstv. ráðherra sagði einnig að leyndar væri gætt um eftirlitið og að sjálfsögðu er það að mörgu leyti eðlilegt þó að það hafi líka fælandi áhrif að eftirlitið sjáist.

Ég held að það sem menn hafa kannski áhyggjur af séu sögusagnir og meira en það, það eru upplýsingar á blöðum og í viðtölum um að erlendar áhafnir sem eru skráðar á skip hafi staðið vakt í höfnum og aðrir sjáist ekki.