132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

öryggisgæsla við erlend kaupskip.

802. mál
[18:25]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir þann skilning sem þeir sýna á því sjónarmiði sem fram kom hjá mér að ekki sé hægt að upplýsa í smáatriðum um það hvernig þessu eftirliti er háttað en þær ábendingar og athugasemdir sem fram komu í máli þeirra tel ég eðlilegt að verði farið yfir í ráðuneytinu með þeim aðferðum sem við höfum í gegnum Siglingastofnun sem sér um og ber ábyrgð á eftirlitinu með hafnaríkiseftirliti, þannig að gengið verði úr skugga um að þarna sé allt með eðlilegum hætti.

Ég tel afar mikilvægt að þetta sé trúverðugt eftirlit og framkvæmd hennar og sé því ástæðu til að láta fara yfir það en ég hef haft upplýsingar um að skipafélögin hafa litið hafnaríkiseftirlitið að þessu leyti og eftirlitið í höfnunum mjög jákvæðum augum og talið að það auðveldi starfsemina og reksturinn á athafnasvæðum skipafélaganna að þessar reglur gildi, t.d. varðandi umferð hið næsta skipunum, og samstarf hafi verið býsna gott milli forsvarsmanna og starfsmanna skipafélaganna við eftirlitsaðilana. Ég held að það sé ríkur vilji til þess að svo sé enda mikið í húfi að þessir hlutir séu í lagi. En að gefnu tilefni er eðlilegt að líta til þessa máls vegna þessarar fyrirspurnar.