132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:53]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Það er eiginlega mjög undarlegt að heyra hv. þingmenn koma hér og reyna að búa til einhvern ágreining í þessu máli. Ágreining sem verður ekki séð að sé til staðar.

Umræðuefnið er þingsályktun. Það má eiginlega segja að hún fjalli um að sannleikurinn geri yður frjálsa. Hún gengur út á að draga fram staðreyndir, draga fram sögulegar staðreyndir til að fá úr því skorið hvað gerðist. Hverjir eiga að annast það? Hvorir ætli séu betur til þess fallnir að draga fram staðreyndir og sannleikann, einstakir hv. þingmenn eða þeir sem gert er ráð fyrir hér í þingsályktun hæstv. forsætisráðherra, þ.e. fulltrúi Persónuverndar, þjóðskjalavörður, forseti Sögufélagsins, skrifstofustjóri Alþingis og formaður stjórnmálafræðiskorar Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands? Það stendur hér jafnframt að þeir eigi að hafa aðgang að öllum fáanlegum upplýsingum sem til eru. (Gripið fram í.) Síðan á að leggja skýrslu þessara sérfræðinga fyrir hv. Alþingi. (Gripið fram í.) Þá geta alþingismenn tekið málið upp og rætt það fram og aftur.

Frú forseti. Ég skil ekki alveg hvers vegna er verið að reyna að búa til ágreining þar sem þetta mál er að sjálfsögðu alvarlegt. Það er enginn sem neitar því að allar vísbendingar bendi til að ólöglegar persónunjósnir hafi átt sér stað. Við þurfum að fá sannleikann fram og við þurfum að geta rætt málið á grundvelli staðreynda en ekki getgátna. Út á það gengur þetta mál, frú forseti.