132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:55]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég byrjaði umræðuna áðan á að beina spurningu til forseta þingsins. Ég varð ekki vör við að ég fengi neitt svar frá forseta Alþingis. Ég fékk hins vegar svar frá forsætisráðherra og ég fékk svar frá utanríkisráðherra sem greinilega stjórna orðið öllu þinghaldinu og stjórna því með hvaða hætti Alþingi tekur á málum sem að því snúa.

Ég vitnaði í ummæli í blöðunum sem höfð voru eftir forseta Alþingis, Sólveigu Pétursdóttur, sem sagði að Alþingi hefði auðvitað ýmis úrræði til að takast á við þetta mál. Ég hefði talið það alveg fullkomlega eðlilegt og venjulega kurteisi við þingmenn í stjórnarandstöðu að fulltrúar þeirra væru kallaðir til til þess að ráðslaga um með hvaða hætti þingið tæki á þessu máli.

Auðvitað getur framkvæmdarvaldið opnað öll sín skjalasöfn ef það svo kýs. Það þarf ekki atbeina Alþingis til þess. Það er gott að þeir geri það og fræðimenn komist í þau.

En Alþingi verður að taka á því og þeirri staðreynd að það var dómsmálaráðherra á hverjum tíma sem fór fram á að símar hjá pólitískum andstæðingum hans væru hleraðir. Símar alþingismanna. Um þetta þarf þingið að fjalla og ræða og það á að gera það án atbeina dómsmálaráðherra, án atbeina forsætisráðherra eða utanríkisráðherra.

Ég beindi þessari spurningu til hæstv. forseta og ég fer fram á að fá einhver svör um það hvort forseti hyggist beita sér fyrir því að fulltrúar þingflokkanna, að þingflokksformenn verði kallaðir til fundar til að fjalla um með hvaða hætti sé hægt að ná pólitískri sátt um hvernig við tökum á þessu máli. Hér er ekki um það að ræða að fara að fella einhvern dóm yfir sögunni. Það er einfaldlega um það að ræða að kalla eftir þeim gögnum úr dómsmálaráðuneytinu þar sem farið hefur verið fram á að símar væru hleraðir. Skoða af hverju um það var beðið, hjá hverjum og gefa þeim einstaklingum sem fyrir því urðu upplýsingar um að símar þeirra hafi verið hleraðir.

Hv. þm. Birgir Ármannsson vísaði til þess að í dag bæri að tilkynna mönnum ef hleranir hefðu verið stundaðar á símum þeirra. Það er réttarframkvæmdin í dag.

Er ekki kominn tími til að við tilkynnum því fólki sem varð fyrir hlerunum á þessum árum að símar þeirra hafi verið hleraðir? Svo þeir og afkomendur þeirra viti af því.