132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[11:04]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er eins og fyrri daginn að menn nota þennan lið um fundarstjórn forseta til að fara í efnislega umræðu um mál. Hvers lags eiginlega er þetta þegar hér liggur fyrir mál, þingsályktunartillaga, sem hægt er að ræða efnislega í þinginu? Það er búið að gera samkomulag um hvernig þessi þingstörf eigi að ganga fram í dag og þetta eru efndirnar. Það er farið í efnislega umræðu um þingsályktunartillögu undir liðnum um fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.) Ég geri mjög verulegar athugasemdir við fundarstjórn forseta að hún skyldi ekki stöðva þessa umræðu því að þetta er ekki til sóma fyrir okkur og þessi (Gripið fram í.) þingsályktunartillaga sem liggur fyrir á auðvitað að ræðast sem slík en ekki undir liðnum um fundarstjórn forseta. Þetta vinnulag gengur ekki hér í þinginu og ég geri athugasemdir við það, hæstv. forseti.