132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

samstarf til að styrkja rannsóknir á hvalastofninum í Norður-Atlantshafi.

542. mál
[11:47]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þetta mál þyrfti nú að ræða í löngu máli því að um mikilvægt mál er að ræða sérstaklega í ljósi umræðu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur staðið fyrir um að ekki sé hægt að standa í svokallaðri uppbyggingu fiskstofna nema nokkrar hrefnur séu drepnar árlega. En vegna þess að við í Frjálslynda flokknum höfum gert samkomulag um að greiða fyrir þingstörfum eins og það er kallað ætla ég að stytta mál mitt eins og kostur er.

Það er einmitt mjög mikilvægt og þess vegna vil ég árétta það að menn rannsaki þessi mál og geri sér grein fyrir orkuflæðinu í hafinu. Þær hugmyndir sem hafa komið fram t.d. hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra, hann segir í þingræðu að það sé tómt mál að tala um að það takist að byggja upp nytjastofna eins og þorskinn nema við stundum hvalveiðar. Þetta lýsir mjög undarlegri sýn á lífríki hafsins að nefna það að veiðar á nokkrum hrefnum skipti sköpum. Við verðum að gera okkur grein fyrir að þær talningar sem hafa verið framkvæmdar sýna fram á að það séu u.þ.b. 46.400 hrefnur, sem komu út úr talningunni, í kringum landið. Það að veiða 100 eða 200 skiptir ekki miklu máli. Við erum að tala um 200 hrefnur, það er innan 0,5% af stofnstærðinni. Það getur hver maður séð að það skiptir ekki öllu máli upp á uppbyggingu fiskstofna. Menn eiga miklu frekar að líta á samspil fiskanna sjálfra sem eru stærsti hluti lífmassans í hafinu, hvernig orkuflæðið er þar á milli.

Ég nefndi í umræðu að ef hver og einn þorskur í einum árgangi, segjum nýliðar, sem hefur verið áætlað að geti verið um 200 milljón einstaklingar, éti einu sinni þorsk sem er í yngri árgangi en nýliðarnir þá fækkar hann um jafnmarga í stofninum og það getur verið allt að 100 þús. tonn ef sá fiskur sem hann étur er að jafnaði um hálft kíló. Þar eru stærðirnar en ekki nokkrir hvalir sem eru á svamli í kringum landið. Ég vonast svo sannarlega til að menn fari að gera sér grein fyrir þessu, að menn velti þessum hlutum fyrir sér en séu ekki eingöngu að horfa á og rannsaka hvali út frá því að þeir éti frá okkur fiskinn. Það eru aðrir þættir sem skipta verulega miklu máli. Einnig þegar menn horfa á veiðar sem meginþátt í misheppnaðri fiskveiðistjórn, menn ofáætla að mínu mati þátt veiða og þátt afráns hvala og sela.

Menn verða að hafa í huga þegar rætt er um stjórn fiskveiða og hvalastofna og þátt veiða að áætlað hefur verið að veiðar mannsins séu u.þ.b. 1/10–1/20 af því sem fuglar himinsins og spendýr hafsins taki af sjávarfangi úr hafi sér til næringar. Samt sem áður, þó svo að þetta sé 10–20 sinnum stærri þáttur en veiðarnar, eru þetta aukaleikarar miðað við massann, sem eru fiskarnir sjálfir, sem éta hverjir aðra.

Eins og ég sagði ætlaði ég ekki að hafa ræðu mína miklu lengri en vonast til að hún hreyfi við þeirri umræðu um fiskveiðistjórn að menn einblíni ekki endilega um of á hvali sem einhverja meginþætti í því hve illa gengur að stjórna fiskveiðum og einnig að menn líti ekki á veiðarnar sem mjög stóran þátt í því hvað okkur gengur brösuglega að stjórna fiskveiðum í kringum landið með kvótakerfi sem hefur sýnt sig á síðustu árum og áratugum að er algerlega misheppnað stjórntæki, frú forseti.