132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

breyting á XI. viðauka við EES-samninginn.

687. mál
[11:58]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/2005, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólöfu Hrefnu Kristjánsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Þórhall Vilhjálmsson frá forsætisráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.

Tilskipunin mælir fyrir um lágmarkssamræmingu á reglum um notkun opinberra upplýsinga sem almenningi er heimill aðgangur að. Mælt er fyrir um lágmarksreglur um aðgang, meðferð umsókna, skilmála fyrir notkun upplýsinga, upplýsingaskyldu um rétthafa verndaðra verka, form, gjaldtöku, jafnræði o.fl. Þá er gert ráð fyrir að takmarkanir megi setja í þágu persónuverndar og friðhelgi einkalífs, höfundaréttar og lögverndar annarra hugverka.

Innleiðing gerðarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur forsætisráðherra þegar lagt fram frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996 sem nú er til meðferðar í allsherjarnefnd.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Að þessu nefndaráliti standa hv. þingmenn Halldór Blöndal, Össur Skarphéðinsson, Drífa Hjartardóttir, Jón Gunnarsson og Bjarni Benediktsson.