132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

lokafjárlög 2004.

575. mál
[12:18]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti 2. minni hluta fjárlaganefndar, en eins og kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Stefánssonar gilda þær sérkennilegu reglur að meiri hluti getur verið kallaður minni hluti ef ekki er uppfyllt það skilyrði að nægilega margir séu mættir á fund af hálfu meiri hluta til að vera meiri hluti í heildarfjölda nefndarmanna. Ég geri því grein fyrir áliti 2. minni hluta fjárlaganefndar sem hefðbundið er þó hinn eiginlegi minni hluti í fjárlaganefnd.

Undir þetta nefndarálit rita auk mín hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir og Jón Bjarnason.

Frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2004 er hið sjöunda í röðinni síðan ný lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, tóku gildi en þau komu til framkvæmda árið 1998. Þetta frumvarp er jafnframt hugsað sem staðfesting á ríkisreikningi fyrir árið 2004.

Frú forseti. Þrátt fyrir að ný lög um fjárreiður ríkisins hafi verið samþykkt árið 1997 og það sé þó þetta um liðið virðist sem framkvæmdarvaldið og meiri hlutinn á Alþingi hafi ekki náð því að fara eftir þeim lögum eins og eðlilegt verður að telja. Þetta á því miður við um fjárlagagerð, fjáraukalagagerð og síðan lokafjárlög og mun ég gera nánar grein fyrir því í nefndarálitinu.

Í 45. gr. fjárreiðulaganna er fjallað um frumvarp til lokafjárlaga og segir þar orðrétt, með leyfi forseta: „Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar. Þar skal leitað heimilda til uppgjörs á skuldum eða ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins. Heimilt er að greiða slíka umframgreiðslu af fjárveitingu næsta árs. Einnig skal gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.“

Ljóst er að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar uppfyllir ekki öll skilyrði þessarar greinar. Í fyrsta lagi fylgdi frumvarpið ekki ríkisreikningi þegar hann var lagður fram á sínum tíma. Í öðru lagi eru ekki gefnar skýringar á geymdum fjárheimildum og í því eru ekki heldur upplýsingar um þá aðila sem farið hafa fram úr fjárheimildum ársins. Þá er í þriðja lagi ekki gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.

Í raun getur nefndarálit minni hluta fjárlaganefndar um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2003 staðið nánast óbreytt hvað varðar það frumvarp til lokafjárlaga sem fjallað er um hér. Engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar á úrvinnslu og framsetningu þrátt fyrir alvarlegar athugasemdir minni hluta fjárlaganefndar og Ríkisendurskoðunar sem birtist í nefndarálitinu um lokafjárlög fyrir árið 2003.

Það er, frú forseti, athyglisvert að þrátt fyrir að ár eftir ár hafi bæði minni hluti fjárlaganefndar og ekki bara minni hluti fjárlaganefndar heldur einnig Ríkisendurskoðun gert mjög alvarlegar athugasemdir við þá framkvæmd sem snýr að lokafjárlögum, fjárlagagerðinni og fjáraukalagagerð, þá eru engar breytingar gerðar á vinnulagi. Það væri því áhugavert fyrir yfirstjórn þingsins að fara yfir þau mál hvernig á því standi að Ríkisendurskoðun, sem er stofnun Alþingis, skuli ekki ná fram athugasemdum sínum, ekki skuli vera á þær hlýtt og ekki farið eftir þeim. Það er mjög alvarlegt, sérstaklega þegar við erum í þessu tilfelli að fjalla um fjárlög ríkisins að það skuli ekki duga að ár eftir ár gerir Ríkisendurskoðun alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið er að verki en þrátt fyrir það verða engar breytingar á vinnulagi.

Í bréfi sínu til fjárlaganefndar, dags. 4. apríl 2006, gerir Ríkisendurskoðun ekki sérstakar athugasemdir við frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2004. Hins vegar ítrekar stofnunin ábendingar sínar um það sem betur má fara í fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga og gerir grein fyrir þeim í minnisblaði sem fylgir áliti 2. minni hluta fjárlaganefndar. Í því sambandi bendir stofnunin á ítrekað vanmat á lífeyrisskuldbindingum, afskriftum skattkrafna, vaxtakostnaði og fleiri reiknuðum liðum í fjárlögum. Þá bendir stofnunin á að fjárheimildir sem flytjast sjálfkrafa á milli ára koma ekki fram í fjárlögum ársins og þær eru því ekki ræddar í tengslum við afgreiðslu fjárlaga hvers árs. Þá telur stofnunin að ekki hafi verið gripið nægjanlega fast í taumana þótt útgjöld einstakra fjárlagaliða stefni langt umfram fjárheimildir. Loks bendir Ríkisendurskoðun á að skortur er á tímanlegum upplýsingum um stöðu fjárheimilda og fjárhagsstöðu stofnana innan reikningsársins. Í minnisblaðinu kemur enn fremur fram að sumar þessara athugasemda hafa verið ítrekaðar ár eftir ár, m.a. í skýrslum stofnunarinnar um framkvæmd fjárlaga og endurskoðun ríkisreiknings. Orðrétt segir, með leyfi forseta:

„Svo virðist sem stjórnvöld hafi ekki enn sem komið er talið sérstaka ástæðu til að taka nema takmarkað tillit til athugasemda sem lúta að fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga.“

Frú forseti. Hér segir orðrétt í minnisblaði Ríkisendurskoðunar að stjórnvöld hafi ekki nema í litlum mæli tekið tillit til athugasemda sem endurteknar hafa verið ár eftir ár og lúta að fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga. Hér er um mjög alvarlega athugasemd að ræða af hálfu stofnunar sem heyrir undir Alþingi og á að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Það er umhugsunarefni hvernig þingið á að taka á slíku. Þetta hefur margoft verið rætt innan fjárlaganefndar og oft og tíðum hefur meiri hluti nefndarinnar sýnt tilburði í þá átt að reyna að skapa sér sjálfstæði og starfa eins og gert er ráð fyrir að fjárlaganefnd eigi að starfa, skapa sér sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu, en því miður hafa þeir tilburðir yfirleitt verið slegnir af jafnharðan.

Nýjasta dæmið var nú á vordögum þegar Ríkisendurskoðun fór yfir mál sem snýr að tónlistarhúsi sem ætlunin er að reisa í borginni og kom þar fram að þar var, vægt til orða tekið, farið ansi frjálslega með ýmsa hluti. Þar gerði meiri hlutinn virkilega tilraun til að taka á máli en því miður virðist ýmislegt benda til þess að því verði ekki fylgt eftir. En við vonum ætíð hið besta og vonum að á hausti komanda verði meiri vilji til þess að nefndin starfi eins og gert er ráð fyrir og hún virki ekki eins og því miður hefur verið undanfarin ár sem stimpill, þ.e. að stimpla eingöngu það sem kemur frá ríkisstjórninni án þess að yfir það sé nægjanlega vel farið og vinnubrögð séu nægjanlega vel vönduð.

Frú forseti. Í árslok 2004 voru 179 fjárlagaliðir samtals 21,3 milljarðar kr. umfram heimildir en 280 fjárlagaliðir voru samtals 16,4 milljörðum kr. innan heimilda. Þetta sýnir vel þá miklu veikleika sem eru í fjárlagagerðinni og minni hluti fjárlaganefndar hefur ítrekað bent á undanfarin ár. Samt sem áður gerir framkvæmdarvaldið ekkert til að skýra þessa stöðu né heldur er tekið á þessum vanda. Fjármálaráðuneytið hefur verið tregt til að leggja til að fella niður skuldir og telur slíkt til þess fallið að draga úr ábyrgð forstöðumanna og ráðuneyta. Samt sem áður hefur sama ráðuneyti ekkert gert til að láta viðkomandi aðila sæta ábyrgð og hefur í raun neitað Alþingi um nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að greina þennan vanda betur. Í tíð sitjandi ríkisstjórnar hefur Alþingi því miður nánast afsalað sér fjárveitingavaldinu í hendur framkvæmdarvaldinu og ekkert bendir til þess að breytinga sé að vænta í þeim efnum.

Það er athyglisvert að Ríkisendurskoðun telur að ekki sé aðeins við forstöðumenn viðkomandi stofnana og ráðuneyta þeirra að sakast heldur bendir hún á að fjármálaráðuneytið hefur látið ríkissjóð fjármagna hallareksturinn með því að greiða laun og annan kostnað án þess að fyrir hendi séu nauðsynlegar heimildir til slíks yfirdráttar hjá Fjársýslu ríkisins.

Þetta segir okkur, frú forseti, að fjármálaráðuneytið gerir sér grein fyrir því að fjárlagagerðin er svo veik og í svo litlum tengslum við raunveruleikann að ráðuneytið treystir sér ekki til að beita þeim aðhaldsaðgerðum og heimildum sem það hefur vegna þess að það stendur ekki á þeim grunni sem það þarf til að beita því. Þar af leiðir að fjárlagagerðin er ekki rétt, hún er ekki í tengslum við raunveruleikann. Þess vegna er allt tal þeirra manna sem með þetta fara um að þetta sé á ábyrgð stofnananna afar veikburða og í raun og veru algjörlega út úr korti við þann raunveruleika sem við búum við.

Það er ekki síður nauðsynlegt að inneignir stofnana fái meiri umfjöllun en raun ber vitni. Af hverju geta einstakar stofnanir „safnað“ fjármunum ár eftir ár? Er kostnaðaráætlun þeirra of há, framkvæma þær ekki allt sem lög um þær gera ráð fyrir, eða skekkja uppgjörsreglur varðandi markaðar tekjur og rekstrartekjur myndina?

Annar minni hluti fjárlaganefndar telur nauðsynlegt að taka lög um fjárreiður ríkisins til endurskoðunar með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur. Sérstaklega þarf að skoða heimildir til flutnings inneigna og skulda á milli ára og til álita kemur að afnema þessa heimild eða takmarka hana við 4% af fjárveitingu viðkomandi árs, enda hefur þessi heimild verið misnotuð af framkvæmdarvaldinu um árabil. Þá þarf einnig að skilgreina betur hlutverk og notkun safnliða í fjárlögum en vegur þeirra hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár og dregið úr gegnsæi fjárlaga hvað varðar fjárheimildir einstakra fjárlagaliða.

Það frumvarp til lokafjárlaga sem hér liggur fyrir sýnir í hnotskurn þann vanda sem fjárlagaferlið og framkvæmd fjárlaga er í. Nú á tímum er hvatt til gagnsæis í íslenskri stjórnsýslu og stofnuð hafa verið embætti umboðsmanna og samþykkt ýmis lög til að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum frá stjórnvöldum. Á sama tíma sitja þjóðkjörnir fulltrúa á hinu háa Alþingi með mjög takmarkaðar upplýsingar þegar kemur að umfjöllun um fjárlög, fjáraukalög og lokafjárlög. Þessu þarf að breyta.

Frú forseti. Þrátt fyrir að við séum að fjalla um lokafjárlög fyrir árið 2004 er allt það ferli í raun undir í umræðunni sem hefst við gerð fjárlaga því að þetta er raunverulega lokapunkturinn á því ferli. Þess vegna fjallar álit 2. minni hluta fjárlaganefndar að stórum hluta til um það ferli og gefur því öllu saman í raun falleinkunn. Ég ítreka að það er ekki bara minni hluti fjárlaganefndar hefur þessa skoðun heldur hefur hið sama ítrekað komið fram í athugasemdum frá Ríkisendurskoðun ár eftir ár. Því er full ástæða til að þessi mál séu tekin til alvarlegrar skoðunar og ég ítreka að ég tel þetta það alvarlegt mál að yfirstjórn þingsins ætti að fara yfir það og velta því fyrir sér hvernig á því standi að þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir frá Ríkisendurskoðun láti framkvæmdarvaldið og meiri hluti þess á Alþingi það eins og vind um eyru þjóta og hefur varla hreyft litla putta til að mæta þeim athugasemdum.

Frú forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar sem myndaður er auk mín af hv. þingmönnum Helga Hjörvar, Katrínu Júlíusdóttur og Jóni Bjarnasyni.