132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[13:50]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar.

Í nefndaráliti sem er á þskj. 1204 er tekið fram hvaða gestir komu á fund nefndarinnar og hvaða umsagnir bárust.

Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að tekin verði gjöld af beiðnum til héraðsdóms og sýslumanns á grundvelli laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum, en samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til slíkra laga. Í öðru lagi er lagt til að gjald fyrir umsókn um íslenskan ríkisborgararétt verði hækkað úr 1.350 kr. í 10.000 kr. og að gjald fyrir tilkynningu um ríkisborgararétt verði hækkað úr 1.350 kr. í 5.000 kr. Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði upp gjald fyrir afgreiðslu umsókna um dvalarleyfi og búsetuleyfi. Í fjórða lagi er lagt til að tekið verði upp gjald fyrir beiðni til mannanafnanefndar um samþykki fyrir nafni og í fimmta lagi er lagt til að tekið verði gjald fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaði en gert er ráð fyrir í lögum nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, að kveðið sé á um slíka gjaldtöku í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram í máli fulltrúa ráðuneytanna að tekjuauki ríkissjóðs af frumvarpinu í heild yrði um 38–39 millj. kr., þó með þeim fyrirvara að þegar ríkisborgarar hinna 10 nýju aðildarríkja ESB yrðu meðhöndlaðir sem EES-borgarar mundu þessar tekjur lækka umtalsvert. Nú liggur fyrir að það muni eiga sér stað á þessu ári, þ.e. verði frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins að lögum — en það er þegar orðið, það varð fyrir 1. maí eins og hv. þingmönnum er kunnugt.

Spurt var hvort einhver úttekt hefði verið gerð á því hvaða kostnaður lægi að baki gjöldum sem kveðið er á um í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Fram kom í máli fulltrúa fjármálaráðuneytisins að svo væri ekki. Í því sambandi undirstrikar meiri hlutinn að þau gjöld sem lögin kveða á um eru skattar en ekki þjónustugjöld enda renna gjöldin í ríkissjóð til almennrar tekjuöflunar en er ekki ætlað að standa undir þeim kostnaði sem af viðkomandi þjónustu leiðir, enda oft mjög erfitt að finna út úr því.

Hvað varðar gjald fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaði velti nefndin því fyrir sér hvort yfirhöfuð væri rétt að taka gjald fyrir slíkan aðgang, samanber umræðu um gjald fyrir rafrænan aðgang að lagasafninu sem fram fór á sínum tíma. Meiri hlutinn bendir á að í 3. málsl. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, segir að fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaði skuli greiða gjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Með frumvarpi þessu er því eingöngu verið að uppfylla þá lagaskyldu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Magnús Stefánsson, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson og Ásta Möller.