132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[13:53]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar en það er svohljóðandi:

Frumvarpið felur í sér gríðarlegar hækkanir á nokkrum gjöldum sem innheimt eru fyrir veitta þjónustu á vegum stofnana ríkisins. Þessar hækkanir koma fyrst og fremst við nýja Íslendinga og útlendinga sem koma hingað til lengri eða skemmri dvalar. Þannig hækkar gjald vegna umsóknar um íslenskan ríkisborgararétt um 640% eða úr 1.350 kr. í 10.000 kr. og gjald vegna tilkynningar um íslenskan ríkisborgararétt hækkar um 270% eða úr 1.350 kr. í 5.000 kr. Þá verður eftirleiðis tekið gjald fyrir afgreiðslu umsóknar um dvalar- og búsetuleyfi, en það er nýmæli í frumvarpinu, og getur gjaldið verið allt frá 2.000 kr. og upp í 8.000 kr. Ekki hafa verið lagðar fram neinar upplýsingar né útreikningar á því hvort fyrirhuguð gjaldtaka sé í samræmi við líklegan kostnað við þá þjónustu sem veitt er.

Í heildina er áætluð tekjuaukning ríkissjóðs vegna þessa frumvarps 38–39 millj. kr. Hér er einfaldlega um skattahækkun að ræða og það er til marks um stefnu og hugarfar meiri hlutans á þingi, sem birtist í þessu máli sem öðrum, að hann telur helst hægt að sækja slíkar hækkanir í vasa nýrra Íslendinga en stór hluti þeirra vinnur hér á landi í láglaunastörfum.

Minni hlutinn er andvígur frumvarpinu og mun greiða atkvæði gegn því.

Undir þetta nefndarálit rita auk mín þingmennirnir Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson.

Virðulegur forseti. Ég vil af þessu tilefni fara nokkrum orðum um þetta frumvarp og um skattálögur ríkisstjórnarinnar í heildina tekið því að þetta er auðvitað angi af þeirri stefnu sem þessi ríkisstjórn fylgir fram sem er sú að leggja helst álögur á þá sem kannski minnsta burði hafa til þess að bera þær en létta þeim heldur af hinum. Ég ætla aðeins að fara yfir það hér á eftir en áður en ég geri það, forseti, vil ég þó segja og ég hef haft orð á því í efnahags- og viðskiptanefnd að mér finnst sú skattlagning sem ríkið er að taka til sín eftir ýmsum leiðum í gegnum aukatekjur ríkissjóðs satt að segja mjög sérkennileg vegna þess að ríkissjóður nýtir sér einfaldlega þá heimild sem hann hefur til þess að leggja á ýmsa skatta sem eru í eðli sínu þjónustugjöld. Ef þetta væri t.d. til innheimtu hjá sveitarfélögunum, sem ekki hafa sjálfstæða skattlagningarheimild, og sveitarfélögin gæfu út þau leyfi sem hér er um að ræða þá gætu þau ekki innheimt fyrir það gjald nema þau gætu fært sönnur á að tilkostnaðurinn sem sveitarfélögin hefðu við meðferð þessara mála væri jafnmikill eða meiri en næmi þessu gjaldi. Þarna kemur munurinn á þjónustugjöldum á vegum sveitarfélaganna annars vegar og skattlagningarvaldi ríkissjóðs og ríkisins hins vegar, sem mér finnst ríkið fara nokkuð frjálslega með. Það á ekki bara við í þessu tilviki, við sjáum það auðvitað í ýmsum þjónustugjöldum sem ríkið er að innheimta, hvort sem það er nú í heilbrigðiskerfinu eða annars staðar, að það er einfaldlega ákveðið að þetta gjald skuli vera en oftar en ekki liggur enginn útreikningur til grundvallar á því hver tilkostnaðurinn er við að veita tiltekna þjónustu.

Nú getur vel verið að í þessu tilviki sé einhver slíkur útreikningur til og í greinargerð með frumvarpinu hefur í rauninni komið fram að talsverður kostnaður fylgi þessu en við höfum ekki séð þá útreikninga. Eins má líka spyrja sig hvort það sé réttlætanlegt í öllum tilvikum að láta þann sem þjónustuna fær greiða þann kostnað sem henni er samfara, það er bara matsatriði hverju sinni. Eins og hér kemur fram í nefndaráliti okkar teljum við að með þessari gjaldtöku sé verið að velta kostnaðinum á þá sem kannski síst skyldi og hækkunin er gríðarlega mikil.

Þetta tengist almennt forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattamálum og ég vil rétt hlaupa á ýmsum aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir í skattamálum sem allar eiga það sammerkt að þær höggva í sama knérunn, þ.e. þær koma hart við þá tekjulægstu en eru ívilnandi fyrir þá tekjuhæstu. Þar vegur auðvitað þyngst skerðing skattleysismarka en ef skattleysismörk hefðu fylgt þróun launavísitölu frá árinu 1995 væru þau 45 þús. kr. hærri á mánuði en þau eru núna, en sé miðað við neysluvísitölu væru þau um 15 þús. kr. hærri. Þetta er auðvitað það sem vegur þyngst í þessu öllu saman, þ.e. skerðing skattleysismarkanna. Þetta veldur því að um 30 þúsund manns með tekjur á bilinu frá skattleysismörkum og að 100 þús. kr. greiða um tvo milljarða kr. í skatta. Þetta er fólk sem er með undir 100 þús. kr. á mánuði.

Tekjuskattslækkunin, þ.e. lækkunin á álagningarprósentu í tekjuskatti hefur vissulega átt sér stað en hún hefur ekki vegið upp á móti þeirri skerðingu skattleysismarka sem hér hefur átt sér stað. Þessi tekjuskattslækkun hefur hins vegar skilað hátekjufólki mestu. Ef við lítum bara á lækkun almenna tekjuskattsins getum við sagt að um 82% af lækkun almenna tekjuskattsins og náttúrlega öll lækkun hátekjuskattsins lendir hjá tekjuhærri helmingi þjóðarinnar. Sé litið til hinna allra tekjuhæstu kemur í ljós að um 17% af lækkun almenna tekjuskattsins og 85% af lækkun hátekjuskattsins fer til þeirra fimm prósenta sem hafa mestar tekjur í samfélaginu.

Þegar allar breytingar ríkisstjórnarinnar á skattkerfinu frá 1995 eru lagðar saman, og við tökum eignarskattinn inn í það líka, vegna þess að eignarskatturinn hefur verið lækkaður, þá kemur í ljós að þær færa manni með milljón kr. mánaðarlaun ígildi einna mánaðarlauna hans í vasann á ári en á meðan þarf ellilífeyrisþeginn að borga einum mánaðarlaunum sínum meira í skatt á ári, þ.e. allar breytingarnar frá 1995 færa milljón króna manninum ígildi einna mánaðarlauna í lækkun á ári en ellilífeyrisþeginn þarf að borga einum mánaðarlaunum meira í skatt á ári. Þetta segir auðvitað meira en mörg orð um skattstefnu ríkisstjórnarinnar.

Nú getur vel verið að menn vilji hafa þá stefnu að hafa skatthlutfallið sem allra lægst og eða vilji ekki eiga við skattleysismörkin eða hækka þau samhliða því sem laun hækka í landinu og vilji svo koma til móts við hina tekjulægstu eftir einhverjum öðrum leiðum, t.d. með barnabótum, vaxtabótum, hækkun lífeyris eða öðru slíku. En þegar barnabæturnar eru skoðaðar kemur í ljós að útgjöld vegna barnabóta hafa ekki haldið í við verðlagsþróunina. Á föstu verðlagi voru útgjöld til barnabóta 6,4 milljarðar á árinu 1995 en eru 5,4 milljarðar á árinu 2004. Þarna munar milljarði á föstu verðlagi hvað barnabætur eru lægri núna en þær voru 1995. Sama gildir um vaxtabætur, þær hafa líka verið skertar þannig að það er ekki hægt að halda því fram að ríkisstjórnin hafi komið til móts við þá tekjulægstu í samfélaginu með einhverjum mótvægisaðgerðum, einhverjum öðrum aðgerðum eins og hækkun barnabóta eða vaxtabóta, lífeyris eða öðru slíku.

Virðulegi forseti. Mér fannst ekki annað hægt en að fara aðeins yfir þessi mál hér á þinginu í dag samhliða því sem við erum að afgreiða þetta frumvarp um aukatekjur ríkissjóðs vegna þess að þetta frumvarp varpar fram mynd af því hver skattstefna ríkisstjórnarinnar er. Þó að sú mynd sem hér er um að ræða sé ekki stór í sniðum má engu að síður líta á hana sem hluta af þeirri heild og hún segir okkur mikla sögu um stefnu ríkisstjórnarinnar.