132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:07]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að gjaldið sé sums staðar á Norðurlöndunum hærra. Það er alls staðar hærra, frú forseti, eftir að við erum nýbúin að hækka það. Það er alls staðar hærra og búið að vera lengi hærra en það gjald sem við erum núna að hækka upp í.

Auðvitað liggur á bak við þetta mat á gífurlega mikilli vinnu við að veita fólki ríkisborgararétt. Það þarf að senda umsagnir til Útlendingastofnunar og lögreglustjóra. Það þarf að kanna forræði yfir börnum sem eru að fá ríkisborgararétt. Það þarf að kanna sakhæfi manna og annað slíkt. Þetta er því mikil vinna og mjög erfitt að meta hana. Ég geri ráð fyrir að önnur Norðurlönd, sem taka allt upp í fjórfalt gjald eftir þessa hækkun okkar, hafi lagt ákveðið mat á það.

Varðandi almennar hugleiðingar um skattamál sem koma þessu máli í sjálfu sér ekki við, þá segir hv. þingmaður að skerðingin hafi orðið af völdum ríkissjóðs, t.d. í sambandi við barnabætur. Það hefur ekkert verið hreyft við því máli. Vandinn sem þar blasir við er að tekjur hafa hækkað miklu meira en barnabæturnar. Það eru færri sem þurfa á þeim að halda. Og eignir manna hafa hækkað gífurlega. Ég tel að það sé ekkert vandamál heldur. Mér finnst bara ánægjulegt að eignir manna hafi hækkað mikið meira en skuldir.