132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:09]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara út í miklar samræður við formann efnahags- og viðskiptanefndar í ræðustóli Alþingis.

En varðandi barnabæturnar er staðan einfaldlega sú að skerðingarmörkin sem miðað er við í tekjum, þ.e. þær tekjur sem framfærandi má hafa áður en til einhverrar skerðingar kemur, eru svo lág. Viðmiðunin er svo lág (Gripið fram í.) að hún hefur alls ekki fylgt þeirri þróun sem hún hefði átt að fylgja á þessum árum. Það er enginn sem getur framfleytt sér og barni sínu með góðu móti á þeim tekjum sem miðað er við þegar skerðing hefst. Skerðingarmörkin, bæði í barnabótum og í lífeyri, eru allt of lág og það er að því leytinu til öðruvísi okkar kerfi en hið norræna að verið er að reyna að finna hverjir eru nógu fátækir á Íslandi til að geta verið inni í bæði lífeyriskerfinu með óskertar tekjur og í barnabótunum með óskertar bætur, í stað þess að annars staðar á Norðurlöndunum er reynt að skilja frá þá sem tekjuhæstir eru. Þetta er eðlismunurinn sem er að verða á íslenska kerfinu og því norræna, fyrst við erum almennt með norrænan samanburð til umfjöllunar.