132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

651. mál
[14:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef gert um þetta frumvarp. Ég tek undir það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði um persónuverndina almennt í kjölfar hryðjuverka í Bandaríkjunum í september 2001. En eins og við þekkjum hafa verið gerðar ýmsar breytingar á lögum þar, sem eru afar varhugaverðar og hafa síðan verið að birtast í lagasetningum víðs vegar um heiminn á eins konar keðjuverkandi hátt.

Fyrirvari minn lýtur þó að öðru, hann lýtur að því sem snertir skilgreiningu á hryðjuverkum. Tilgangur þessara laga eins og hann er skilgreindur í 1. gr. er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til bærra yfirvalda verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi.“

Ekki er ég andvígur þessu. Ég vil koma í veg fyrir peningaþvætti og hvers kyns svindl og að sjálfsögðu einnig hryðjuverk. Spurningin snýst hins vegar um hitt: Hvað eru hryðjuverk? Hvernig skilgreinum við hryðjuverk? Í 3. gr. laganna segir í 2. tölulið, með leyfi forseta:

„Fjármögnun hryðjuverka: Öflun fjár í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það til að fremja brot sem er refsivert skv. 100. gr. a almennra hegningarlaga.“

Hvað segir í 100. gr. almennra hegningarlaga? Hún er reyndar alllöng og í nokkrum liðum en þar segir m.a. í a-lið 100. gr.:

„Fyrir hryðjuverk skal refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum, þegar verknaðurinn í ljósi eðlis hans eða með hliðsjón af aðstæðum þegar og þar sem hann er framinn getur skaðað ríki eða alþjóðastofnun alvarlega:

1. manndráp,

2. líkamsárás,

3. frelsissviptingu,

4. raskar umferðaröryggi skv. 1. mgr. 168. gr., truflar rekstur almennra samgöngutækja o.fl. skv. 1. mgr. 176. gr. …“

Hér er sem sagt vísað í truflun á rekstri almennra samgöngutækja og fleira samkvæmt 1. mgr. 176. gr. Lítum þá á hvað er að finna í 176. gr. Þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ef maður veldur með ólögmætum verknaði verulegri truflun á rekstri almennra samgöngutækja, opinberum póst-, síma- eða útvarpsrekstri eða rekstri stöðva eða virkjana, sem almenningur fær frá vatn, gas, rafmagn, hita eða aðrar nauðsynjar, þá varðar það fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“

Truflun á útvarpsrekstri getur sem sagt leitt til þessa, það er með öðrum orðum skilgreint sem hryðjuverk samkvæmt þeim lögum sem hér er lagt til að við samþykkjum.

Er líklegt að það leiði til málssóknar trufli menn útvarpsrekstur? Já, það hefur reyndar gerst. Það gerðist eftir verkfall opinberra starfsmanna árið 1984. Þá var rekstur útvarpsins stöðvaður hinn 1. október vegna þess að ríkisstjórnin greiddi mönnum ekki laun eins og vera bar fyrir unna vinnu og starfsmenn lögðu niður störf. Sá sem hér stendur var í hópi þeirra sem dregnir voru fyrir rétt, fyrst undirrétt og svo sá ríkissaksóknari ástæðu til að skjóta málinu til Hæstaréttar og krefjast fangelsisdóms vegna þessa. Þá spyr ég: Er stuðningur við Starfsmannafélag sjónvarpsins kannski stuðningur við hryðjuverk? Nú kann þetta að hljóma eins og hvert annað grín en ég meina það ekki sem slíkt. Ég er bara að segja að við skulum hyggja vel að því sem við erum að festa í lögin og skoða nákvæmlega hvert allir þessir angar og þessar rætur liggja eins og ég hef rakið hér.

Hæstv. forseti. Ég vildi gera grein fyrir þessu og vara við því að við samþykkjum ákvæði sem þessu tengist. Ég velti því mikið fyrir mér hvort ég ætti að samþykkja frumvarpið að öðru leyti og hafa fyrirvara. Ég ákvað að gera það vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að koma í veg fyrir peningaþvætti og að sjálfsögðu einnig fjármögnun hryðjuverka ef þau eru raunveruleg. Ég vara hins vegar við þessum öngum, að við förum ekki að reisa skorður við stuðningi við samtök sem eru lýðræðisleg, byggja á andófi hugsanlega, lýðræðislegu andófi, og að við séum varkár þegar við drögum línur í þessum efnum. Við munum í mínum flokki, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, greiða atkvæði gegn þessari grein sem snýr að orðskýringum og leggja þar með áherslu á þennan skilning okkar og þessi varnaðarorð.